Leynigreiningarþjónusta Íslands

Umræðan um stofnun öryggislögreglu eða leyniþjónustu hér á landi verður sífellt háværari. Hugmyndir um stofnun slíks batterís hafa vakið ugg hjá mörgum enda sýnir sagan að ansi margt misgott getur rúmast innan leyniþjónustu. Með stofnun greiningardeildar ríkislögreglustjóra var lítið skref stigið í átt að leyniþjónustu. Til að stíga skrefið til fulls þarf að samþykkja stofnun hinnar svokölluðu þjóðaröryggisdeildar og fylgja þeim tilmælum sem komu fram í nýrri skýrslu um hryðjuverkavarnir. En eru þessi skref skynsamleg?

Umræðan um stofnun öryggislögreglu eða leyniþjónustu hér á landi verður sífellt háværari.Deiglan lýsti fyrst yfir áhyggjum sínum af þessu máli í pistli Andra Óttarssonar fyrir 4 árum síðan í kjölfar ummæla tiltölulega óþekkts embættismanns í dómsmálaráðuneytinu sem hafði orðið þekktur vegna Falun Gong hneykslisins. En pistillinn fjallaði einmitt um það hversu auðveldlega stjórnsýslan hefði getað misnotað leyniþjónustu til að níðast frekar á Falun Gong. Sá pistill er líklega ágætis áminning í dag þegar þessi ágæti embættismaður er nýráðinn lögreglustjóri yfir Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Hugmyndir um stofnun leyniþjónustu hafa vakið ugg hjá mörgum enda getur ansi margt falist í orðinu “leyniþjónusta”. Ef horft er á sögu slíkra stofnana í öðrum vestrænum löndum sést hversu sumar þeirra hafa gjörsamlega tapað sér í baráttunni fyrir “þjóðaröryggi”. Vestrænar leyniþjónustur hafa í gegnum tíðina tekið þátt í ofsóknum á minnihlutahópum, mannránum, pólitískum njósnum, iðnaðarnjósnum, pyntingum og svo mætti lengi telja. Allt í nafni einhvers göfugs boðskapar. Það sem einkennir einnig þessar stofnanir er sú leynd sem hvílir yfir þeirri starfsemi sem þar fer fram, sem virðist oft og tíðum gefa þeim sem þar starfa þau skilaboð að þeir séu hafnir yfir lög og rétt.

Það er ekkert sem bendir til þess að stuðningsmenn íslenskrar leyniþjónustu hafi slíkar fyrirætlanir á prjónunum heldur trúi einlægt að þetta sé rétta leiðin í átt að göfugum markmiðum. Í því samhengi verður hins vegar að benda á að þeir ráðamenn sem stóðu að stofnun margra af verstu leyniþjónustum í heimi voru reknir áfram af sömu hvötum. Þeir hefðu líklega aldrei samþykkt að stofna viðkomandi leyniþjónustu ef þeir hefðu vitað hvaða myrkraverk stofnunin myndi hella sér út í. Auðvitað báru viðkomandi ráðamenn yfirleitt ekki beina ábyrgð á illverkum leyniþjónustunnar. En blindaðir af háleitum markmiðum gerðust þeir hins vegar sekir um að skapa lagalegt umhverfi leyndar og lítillar ábyrgðar sem gerði starfsmönnum leyniþjónustunnar kleyft að fremja ódæði og yfirleitt komast upp með það.

Greiningardeild Ríkislögreglustjóra

Í dag höfum við stigið skref í átt að leyniþjónustu, en í frægu lagafrumvarpi dómsmálaráðherra var hin svokallaða greiningardeild stofnuð. Reyndar stóð í lögreglulögum, fyrir lagabreytinguna, að deild innan Ríkislögreglustjóra skyldi rannsaka landráð og önnur brot gegn stjórnskipun ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Eðli málsins samkvæmt þá hafði þessi deild afar lítið fyrir stafni en engin slík brot hafa verið framin hér á landi í háa herrans tíð. Lagafrumvarp ráðherra breytti öllu en með henni var verksvið deildarinnar víkkað og á hún núna einnig að leggja mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Þetta þýðir í raun að lögreglan fær í fyrsta skipti heimild til að rannsaka mál áður en glæpur hefur verið framinn.

Þetta er varhugaverð þróun því sagan hefur ótvírætt sýnt að þegar menn eiga að fara að geta sér til um hugsanlega misyndismenn þá taka yfirleitt fordómar völdin. Við erum einfaldlega tortryggnari gagnvart þeim sem líta öðruvísi út eða tilheyra hópi sem við þekkjum ekki nógu vel. Þannig verða yfirleitt minnihlutahópar, innflytjendur eða aðrir sem minna mega sín fyrir barðinu á slíkum getgátum.

En þrátt fyrir að það sé vissulega töluvert áhyggjuefni fyrir borgarana að lögreglan geti nú farið að rannsaka þá án þess að þeir hefðu gert nokkurn skapaðan hlut þá fólust litlar valdheimildir í þessari lagabreytingu. Þannig standa ákvæði laga um meðferð opinberra mála í vegi fyrir því að lögreglan geti beitt hlerunum eða öðrum þvingunaraðferðum við rannsóknir sínar á ófrömdum glæpum.

Fyrirhuguð Þjóðaröryggisdeild

En næsta skref bíður handan við hornið. Dómsmálaráðherra lýsti því yfir í ræðu í síðustu viku að það þyrfti að ræða um stofnun leyniþjónustu hér á landi. Þessi ummæli vöktu eðlilega töluverða athygli og þegar ráðherra var spurður nánar út í þetta sagðist hann hann hafa átt við hina svokölluðu þjóðaröryggisdeild sem fjallað var um í skýrslu um hryðjuverkavarnir sem var kynnt fyrr í sumar. Ráðherrann sagði að orðið þjóðaröryggisdeild þýddi það sama og leyniþjónusta á íslensku og furðaði sig á því að menn hefðu ekki fattað það.

Ef umrædd tillaga um þjóðaröryggisdeild er skoðuð sést að hún gengur aðallega út á að sameina undir einum hatti þær valdheimildir sem nú skiptast á milli embættis Ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli, Landhelgisgæslu og ráðuneyta. Samkvæmt skýrslunni virðist ekki vera þörf á því að bæta við neinum valdheimildum að ráði fyrir utan eina mikilvæga undantekningu. Í skýrslunni er lagt til að reglur verði settar um beitingu sérstakra rannsóknarúrræða, einkum forvirkra, sem öryggisþjónustur beita venjulega áður en til opinberrar rannsóknar lögreglu eða réttar kemur.

Eins og áður sagði þá eru slíkar forvirkar rannsóknaraðgerðir í dag ólöglegar, en ef þetta yrði samþykkt þá hefði lögreglan ekki eingöngu heimildir til að rannsaka hugsanlega glæpamenn heldur líka heimild til að handtaka, yfirheyra, hlera og leita hjá viðkomandi. Slíkar valdheimildir hljóta að teljast afar varasamar þar sem þær bjóða heim misnotkun, misrétti og ofsóknum. Jafnframt verður að telja nánast öruggt að starfsemi slíkrar þjónustu yrði leynileg og einungis háð lokuðu innra eftirliti ráðamanna. Slíkt eftirlit hefur í gegnum tíðina reynst afar ófullkomið enda hefur uppljóstrun ólömætrar notkunar oft slæmar pólitískar afleiðingar. Myndi slík lagabreyting því leiða til þess að ákveðin hópur innan stjórnsýslunnar hefði fáheyrð völd og nánast enga ábyrgð gagnvart almenningi í landinu.

Þrátt fyrir að möguleikin á misnotkun sé kannski fjarlægur í dag þá vitum við ekki hverjir munu vera við völd í framtíðinni eða hverjir myndu veljast til starfa hjá fyrirhugaðri leyniþjónustu. Sagan kennir okkar að með slíkar valdheimildir í vopnabúrinu þá getur einn óvandaður einstaklingur gert fáheyrðan skaða.

Og er þetta þá virkilega þess virði?

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)