George Galloway – hetja eða tækifærissinni?

Einn mest áberandi þingmaður á Bretlandi síðustu misseri er Skotinn George Galloway. Hann er þekktur af endemum fyrir ummæli sín, uppátæki og vinskap við Saddam Hussein og þessháttar menn. Hann er upphafinn af mörgum vinstrimönnum víða um heim og gildir það sama um marga íslenska vinsrimenn sem dá hann sökum mælsku og andstöðu við ríkjandi öfl á Vesturlöndum.

Einn mest áberandi þingmaður á Bretlandi síðustu misseri er Skotinn George Galloway. Hann er þekktur af endemum fyrir ummæli sín, uppátæki og vinskap við Saddam Hussein og þessháttar menn. Hann er upphafinn af mörgum vinstrimönnum víða um heim og gildir það sama um marga íslenska vinsrimenn sem dá hann sökum mælsku og andstöðu við ríkjandi öfl á Vesturlöndum.

George Galloway er fæddur í Dundee í Skotlandi árið 1954. Hann var fyrst kjörinn á þing fyrir Verkamannaflokkinn í kjördæminu Glasgow Hillhead árið 1987. Upphófst þá skrautlegur ferill þingmannsins sem oft hefur endað á forsíðum slúðurblaðanna vegna ummæla sinna og einkalífs. Í leiðtogakosningum Verkamannaflokksins árið 1992 studdi hann Skotann John Smith sem kjörinn var leiðtogi en lést vegna veikinda tveimur árum seinna. Í leiðtogakosningunum sem fylgdu í kjölfarið var Tony Blair kjörinn formaður og var Galloway einn af þremur þingmönnum flokksins sem ekki nýtti atkvæðisréttinn. Þá strax var hann orðinn harður gagnrýnandi Blairs.

Galloway hefur lýst því yfir að hann hafi verið mikill stuðningsmaður Sovétríkjanna og sé enn áðdáandi þess fyrirkomulags. Hann er þekktur fyrir stuðning sinn við Saddam Hussein og hefur heimsótt hann oftar en einu sinni. Hann hefur verið bendlaður við meint peningatengsl við harðstjórann fyrverandi og einnig þáði hann greiðslur frá yfirvöldum í Pakistan á tíunda áratugnum sem notað var til útgáfu dagblaðs sem studdi dyggilega við valdhafa landsins. Þá hefur hann verið viðriðin miklar fjármálaóreiðu friðarsamtaka og sætt rannsóknar vegna þess.

Árið 2003 lét Galloway þau ummæli falla að breskir hermenn í Írak ættu að óhlíðnast fyrirskipunum þar sem innrásinn í landið væri ólögleg. Hvatti hann líka alla Araba til þess að grípa til vopna og hjálpa Írökum og kallaði ríkisstjórn Tony Blairs “lygavél”. Var hann rekin úr flokknum í kjölfarið.

En Galloway gafst ekki upp og tók þátt í að stofna vinstriflokkinn RESPECT. Sá flokkur er samansafn Trotskyista (sem Galloway fram af því hafði alltaf átt í ýmsum deilum við), ýmisa villiráfandi sauða úr vilta vinstrinu og íhaldssömum múslimasamtökum. Bauð hann sig fram í Bethnal Green and Bow kjördæminu í austurhluta London en þingmaður þess kjördæmis var þá Oona King sem sat fyrir Verkamannaflokkinn og var önnur svarta konan til þess að ná kjöri á breska þinginu. Barátta þeirra var hörð og illskeytt og varð Oona King, sem studdi innrásina í Írak, og aðrir meðlimir Verkamannaflokksins fyrir miklu aðkasti í hverfinu frá stuðningsmönnum RESPECT þar sem skorið var á dekk á bílum þeirra og jafnvel ráðist á þau sjálf. Galloway hafði nauman sigur enda er hverfið langsterkasta vígi flokksins þar sem mikið af múslimum búa í hverfinu. Þessum sigri Galloway fögnuðu margir vinstrimenn á Íslandi, meðal annars sá Össur Skarphéðinsson ástæðu til þess að gleðjast á heimasíðu sinni.

En stefna flokksins hefur nú rekið nokkuð hratt að hinu íhaldssama múslimaarmi flokksins og virðist það ekki trufla Galloway neitt. Sjálfur er hann andstæðingur fóstureyðinga og hefur ýmsum sjónarmiðum jafnréttissinna verið sópað undir teppið af flokksforystunni. Fyrir síðustu þingkosningar var stuðningi við réttindi samkynhneigðra feld út úr stefnuskrá flokksins og hafa gagnrýnendur innan flokksins bent á að Galloway hafi nánast aldrei verið viðstaddur atkvæðagreiðslur í þinginu þar sem málefni samkynhneigðra hafa verið á dagskrá. Þessir gagnrýnendur eru nú yfirleitt afgreiddir með þeim orðum að þeir séu með fordóma út í Íslam, haldnir svokallaðri íslamsfóbíu.

Hann varð alræmdur um allt Bretland þegar hann lýsti því nú í vor yfir að réttlætanlegt væri að hryðjuverkamenn myrtu Tony Blair forsætisráðherra Breta, vegna ábyrgðar hans á Íraksstríðinu. Galloway var spurður að því í viðtali, sem tímaritið GQ birtir við hann, hvort hann teldi réttlætanlegt að sjálfsmorðssprengjuárásarmaður dræpi Blair, að því gefnu að enginn annar færist í tilræðinu. Galloway svarar: „Já, það væri siðferðilega réttlætanlegt. Ég er ekki að kalla eftir því – en ef það gerðist þá væri það á siðferðilega allt öðru plani en atburðirnir 7. júlí.“ Var Galloway þar að vísa til hryðjuverkaárása í London síðasta sumar þar sem fjórir íslamskir öfgamenn drápu 52 óbreytta borgara.

Það þarf ekki að orðlengja það. Viðbrögðin urðu heiftarleg. Dálkahöfundar bresku pressunnar tóku til máls, leiðarahöfundar skrifuðu ritstjórnargreinar og þess var krafist opinberlega að þingmaðurinn yrði sviptur þingsæti sínu og þinghelgi. Einn dálkahöfundurinn spurði hinnar eðlilegu spurningar. Ef Galloway telur í lagi að drepa Blair af því að hann studdi innrásina í Írak og bar þar ábyrgð, hvað þá með aðra sem það gerðu? Til dæmis þingmennina sem það samþykktu með stuðningi sínum og atkvæði.

Það hlýtur að þurfa að gera þá kröfu til íslenskra vinstrimanna sem vilja binda trúss sitt við Galloway sökum mælsku hans að þeir taki jafnframt afstöðu til bulluháttarlags hans og svo ekki sé talað um félagslegu íhaldssemi sem verður sífellt meira áberandi . George Galloway virðist nefnilega vera einhver versti tækifærissinni breskra stjórnmála.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.