Líffæragjöf – tökum afstöðu

Líffæragjöf – tökum afstöðuÖðru hverju kemur upp í þjóðfélaginu umræða um líffæragjöf og hversu mikilvæg hún er, en jafn harðan deyr umræðan út aftur. Jafnhliða því fáum við fréttir af því að Íslendingar séu meðal þeirra þjóða sem sjaldnast gefa líffæri. Því er augljóst að vitundarvakningar er þörf í samfélaginu um þetta mikilvæga málefni. Einnig er eðlilegt að við leggjum meira af mörkum þar sem við þiggjum líffæri frá öðrum þjóðum.

Líffæragjöf – tökum afstöðuÖðru hverju kemur upp í þjóðfélaginu umræða um líffæragjöf og hversu mikilvæg hún er, en jafn harðan deyr umræðan út aftur. Jafnhliða því fáum við fréttir af því að Íslendingar séu meðal þeirra þjóða sem sjaldnast gefa líffæri. Því er augljóst að vitundarvakningar er þörf í samfélaginu um þetta mikilvæga málefni. Einnig er eðlilegt að við leggjum meira af mörkum þar sem við þiggjum líffæri frá öðrum þjóðum.

Ísland er hluti af norrænum líffæragjafasjóði og fara líffæri sem Íslendingar gefa í þann sjóð og þaðan fá einnig Íslendingar þau líffæri sem þeir þarfnast og eru þau grædd í á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn.

Samkvæmt heimildum frá Landlæknisembættinu þurfa að meðaltali 10 einstaklingar hér á landi líffæraígræðslu á ári hverju. Það eru til dæmis einstaklingar, bæði börn og fullorðnir, með sjúkdóma í líffærum á borð við hjarta, lifur, lungu, bris, nýru o.fl. Líffæragjöfin sjálf felst í því að líffæri eru fjarlægð úr látinni manneskju og þau svo grædd í þá sjúklinga sem beðið hafa líffæragjafar. Úr einum líkama má nýta mörg líffæri og getur því ein manneskja bjargað allt að sex mannslífum. Hins vegar er það þannig að það er mjög lítill hluti dauðsfalla þar sem hægt er að nýta líffæri. Eins og gefur að skilja er því mikilvægt að sem flestir séu reiðubúnir að gefa líffæri sín.

Líffæragjöf er viðkvæmt mál og aðstandendur látinna lenda margir í þeirri erfiðu aðstöðu að taka ákvörðun um líffæragjöf þegar afstaða hins látna er ekki ljós. Því er það þannig að flestir aðstandendur neita líffæragjöf þegar afstaða hins látna er ekki ljós. Þannig að með því að vera sjálfur búinn að taka meðvitaða ákvörðun og ræða hana innan fjölskyldunnar og fá að vita afstöðu annarra fjölskyldumeðlima er hægt að koma í veg fyrir það að aðstandendur þurfi að taka slíka ákvörðun þegar dauðsfall ber að. Að sjálfsögðu óskar maður engum að lenda í slíku en ekki er samt hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að slysin gerast og enginn veit sína ævi fyrr en öll er. Hver veit líka nema maður sjálfur lendi í þeirri aðstöðu að þurfa á líffæragjöf að halda.

Á langflestum heilsugæslustöðvum er hægt að nálgast svokallað líffæragjafakort, en á slíku korti kemur afstaða fólks fram. Það er algengur misskilningur að allir sem gangi með slíkt kort séu tilbúnir til að gefa líffæri sín. En á þessum kortum kemur líka fram ef fólk vill ekki gefa líffæri sín. Þá afstöðu að vilja ekki gefa líffæri sín ber einnig að virða, þar sem hver ræður jú yfir sínum líkama. En mikilvægast í þessari umræðu er því það að fólk taki afstöðu. Fyrir þá sem vilja kynna sér líffæragjöf betur skal bent á heimasíðu landlæknisembættisins http://www.landlaeknir.is þar sem frekari upplýsingar er að finna.

Undirrituð er stoltur eigandi líffæragjafakorts og hefur tekið jákvæða afstöðu til líffæragjafar. Nauðsynlegt er að opna umræðu um líffæragjöf og hvetja fólk til að taka afstöðu. Vöknum öll til vitundar og tökum öll afstöðu til líffæragjafar.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.