Aðferðir einkavæðingarnefndar

Á undanförndum dögum hefur einkavæðingarnefnd og ráðherranefnd um einkavæðingu verið gagnrýnd harðlega vegna þess hvernig staðið var að vali á væntanlegum kaupanda að hlut ríkisins í Landsbankanum. Nefndin getur sjálfum sér um kennt.

Á undanförndum dögum hefur einkavæðingarnefnd og ráðherranefnd um einkavæðingu verið gagnrýnd harðlega vegna þess hvernig staðið var að vali á væntanlegum kaupanda að hlut ríkisins í Landsbankanum. Gjarnan er talað um að söluferlið sem hefur verið í gangi síðan í sumar sé einungis leiksýning sem notuð sé til þess að fela hefðbundin helmingaskipti Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Bennt er á sölu á hlut Landsbankans í VÍS á dögunum til aðila sem tengjast samvinnuhreyfingunni sem vott um að slík helmingaskiptaflétta sé í gangi. Einnig hefur það verið gagnrýnt að Samson hópurinn hafi verið tekinn fram yfir aðra þrátt fyrir að kauptilboð þeirra væri lægra.

Nú má vel vera að þessi gagnrýni sé alröng og að málefnaleg rök liggi að baki því að Landsbankinn seldi hlut sinn í VÍS og að ráðherranefndin valdi að hefja frekari viðræður við Samson hópinn. Það breytir hins vegar ekki því að aðferðin sem stjórnvöld notuðust við í þessu máli bauð upp á gagnrýni. Það eitt að þessar mikilvægu ákvarðanir voru teknar af stjórnmálamönnum bak við lokaðar dyr og síðan birtar almenningi án teljandi rökstuðnings bauð upp á ásakanir um hlutdrægni.

Stjórnvöldum stóð allan tímann til boða önnur aðferð sem enginn hefði getað gagnrýnt á þennan hátt. Stjórnvöld hefðu einfaldlega getað efnt til uppboðs á hlut sínum í Landsbankanum eftir að þau höfðu gengið úr skugga um að aðilarnir sem sendu inn tilkyningu um áhuga fullnægðu eðlilegum skilyrðum.

Ég á alltaf jafn erfitt með að skilja það þegar stjórnvöld velja að nota aðrar aðferðir en uppboð við þessar kringumstæður. Uppboð hafa þann afskaplega mikilvæga kost að leikreglurnar eru fyrirfram ákveðnar og því er ekki hægt að saka stjórnvöld um baktjaldamakk. Þar að auki eru uppboð einstaklega vel til þess fallin að velja þann kaupanda sem skapað getur mest verðmæti úr því sem verið er að selja. Því er erfitt að sjá af hverju stjórnvöld velja trekk í trekk að taka ákvarðandi um sölu eigna og úthlutun verðmætra réttinda bak við lokaðar dyr og á grundvelli óljósra raka. Og á sama hátt auðvelt að skilja það að margir gruni stjórnvöld um að hafa annarleg markmið að leiðarljósi við ákvarðanatökuna.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.