Magni-ficent

Helgarnestið ætlar þessa vikuna að fjalla aðeins um velgengni nýjustu stjörnu okkar Íslendinga, Magna Ásgeirssonar. Eins og flestir landsmenn ættu að vita hefur Magni svo sannarlega verið að ríða feitum hesti frá rokksöngvarahæfileikakeppninni Rockstar Supernova.

Í upphafi sjónvarpshluta keppninnar Rockstar Supernova höfðu 15 söngvarar verið valdir úr undankeppnum sem haldnar voru víða um heim. Hinar bandarísku ofurrokkstjörnur sem standa fyrir keppninni hafa að öllum líkindum heyrt af þeirri gríðarlegu söngást sem hefur fylgt íslensku þjóðinni síðan á tímum Sturlungaaldar, eða alltént síðan menn hófu að neyta áfengra veiga að nokkru magni. Þeir ákváðu því að halda undankeppni hér á landi elds og ís, í von um að ný rokkstjarna væri í fæðingu með viðeigandi látum og hraunflæði í anda eldfjallaeyjunnar. Það er verður því að teljast nokkuð skondið að heimsborgararnir sem mynda dómnefndina hafi kvatt Ísland með austfirska sveitastrákinn Magna úr Á móti sól í farteskinu. Einnig má telja nokkuð líklegt að fjölmargir Íslendingar hafi staðið eftir gapandi með undrunarsvip á andlitinu eftir val dómnefndarinnar enda verður hljómsveit Magna, Á móti sól, seint talin upp á meðal betri skemmtikrafta þjóðarinnar. Margir hafa líklega sopið hveljur og búist við því að Magni yrði sendur heim við fyrsta tækifæri eða allavega um leið og rokkararnir kæmust yfir eintak af nýjasta geisladiski hljómsveitar íslenska sveitastráksins. Í allri hreinskilni þá var pistlahöfundur svo sannarlega á meðal þeirra allra svartsýnustu um gengi Magna í þessari hæfileikakeppni.

Hinsvegar þá má segja án nokkurra ýkja að Magni hafi einfaldlega komið, séð og sigrað. Þó það eigi ekki enn við um heildarkeppnina þá á það svo sannarlega við um hug og hjörtu okkar Íslendinga. Magni hefur ekki aðeins verið að standa sig með mestu ágætum heldur er hann einfaldlega á meðal þriggja bestu rokksöngvaranna í keppninni. Flutningur hans hefur verið honum til mikills sóma og var pistlahöfundur sérstaklega hrifinn af lagavali söngvarans er hann tók lagið Hero. Það er einnig gleðilegt að taka eftir því hversu ótrúlega vinsæll Magni er orðinn meðal aðdáenda keppninnar. Á aðdáendaheimasíðu hinnar verðandi hljómsveitar, supernovafans.com, kemur meðal annars fram að Magni er með nokkrum yfirburðum vinsælasti keppandinn. Á síðunni má einnig sjá að þegar Magni fékk uppkall í síðasta þætti varð hann fyrsti keppandinn til þess að vera kallaður upp í annað sinn. Það virðist því vera nokkuð ljóst að Magni Ásgeirsson hefur nú þegar lagt grunninn að því að verða næsta tónlistarstjarna okkar Íslendinga. Spurningin er hinsvegar hvort hann muni taka frægðarskrefið sem blasir við honum í lok keppninar?

Það liggur í augum uppi að ef Magni vinnur keppnina þá verður vart snúið til baka. Söngvari sem stígur á stokk með jafn reynslumiklum mönnum og Jason Newstead, Tommy Lee og Gilby Clarke er einfaldlega orðinn stórstjarna. Hinsvegar, hvað ef Magni dettur út á lokastigum keppninnar? Hann er nú þegar búinn að tryggja sér stóran en ekkert sérstaklega tryggan aðdáendahóp úti í hinum stóra heimi. Það verður að teljast ansi líklegt að fjölmargir umboðsmenn og útgáfufyrirtæki hafi verið að fylgjast með þáttunum og þá er klárt mál að Magni á von á símtölum um leið og hann dettur út. Vinsældir Magna eru þannig að þær þarf að mjólka strax svo að þær beri sem mestan ávöxt. Endurnýjunin í tónlistarheiminum er einfaldlega svo hröð að jafnvel þó Magni hafi sýnt að hann getur vel staðið sig í hinum alþjóðlega rokkbransa, þá munu sárafáir muna eftir honum eftir hálft ár ef vinsældunum er ekki haldið við.

Það sem pistlahöfundur óttast mest er að Magni sé hugsanlega orðinn saddur. Þannig að ef hann vinnur ekki keppnina þá muni hann einfaldlega afþakka boð um þátttöku í öðrum stórum verkefnum. Þessi hræðsla er byggð á þeirri staðreynd að Magni er fjölskyldumaður og í þokkabót er hann íslenskur sveitastrákur. Tónlistarheimurinn er erfiður heimur að lifa í og því er spurning hvort Magni hafi í raun geð í að leggja það á fjölskyldu sína að taka þá í því endalausa rottuhlaupi sem einkennir götu velgengninnar.

Til þess að slá botninn í þetta þá verðum við að enda helgarnestið á sameiginlegri bón Íslendinga til Magna:

Góði Magni
Þegar þú kemur aftur heim til Íslands
og þér gekk kannski ekki nægilega vel
viltu þá samt lofa, sverja og standa við…
að ganga ekki aftur til liðs við Á móti sól.

Hvað sem verður þá er Magni Ásgeirsson allavega búinn að tryggja sig sem Strákurinn Okkar! Svona þangað til honum fer að ganga illa.