Að skilja Ríkið (og Kirkju)

Þegar ungur frjálslyndur maður ræðir við fólk í sínu nánasta umhverfi kemst hann ekki hjá því að velta því fyrir sér hvert allir þeir sem stjórna gangi ríkisins sækja sitt fylgi.

Þegar ungur frjálslyndur maður ræðir við fólk í sínu nánasta umhverfi kemst hann ekki hjá því að velta því fyrir sér hvert allir þeir sem stjórna gangi ríkisins sækja sitt fylgi.

Ég hef ítrekað rætt við marga jafnaldra mína um málefni líðandi stundar. Stundum eru skoðanir skiptar, línurnar dregnar eftir stjórnmálastefnum, búsetu eða jafnvel kyni hvers og eins. En stundum eru bara allir sammála.

Eitt af þeim málum sem ég hef rætt án þess að upp úr syði nokkurn tímann er aðskilnaður Ríkis og Kirkju. Á Íslandi er eitt trúfélag skilgreint sem trúfélag Ríkisins og nýtur sérstakrar verndar þess. Mörgum finnst þetta vera brot á jafnræðisreglu. Sólveigu Pétursdóttur finnst það ekki eins og fram kemur í andsvari hennar seinast þegar málið var rætt á Alþingi.

„[…]Því langar mig til þess að geta þess að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar kemur ekki í veg fyrir ríkiskirkju í sjálfu sér. Það er viðurkennt á vettvangi alþjóðlegra mannréttinda að svo lengi sem menn missa engra borgaralegra réttinda, þótt þeir tilheyri öðrum trúfélögum, þá sé þetta í lagi.“

Gott og vel. Ég er trúleysingi. Þar sem ég hef samt rétt til að giftast, ættleiða börn, borga hluti með raðgreiðslum, stunda box og fara til útlanda þá ætti ég víst ekkert að kvarta. En það eru fleiri hliðar á þessu máli en borgaralegu réttindin. Borgararnir hafa nefnilega stundum skyldum að gegna. Ég er, til dæmis, óneitanlega verri kandídat í Kirkjumálaráðherra en aðrir þar sem hægt er að efast (réttilega) um vilja minn til að „styðja og vernda“ hina lúthersku evangelísku þjóðkirkju.

Sama á við um forsetaembættið sem er, að nafninu til, æðsta embætti Þjóðkirkjunnar. Erfitt getur verið fyrir efahyggjumann að sækjast eftir slíku embætti án þess að þurfa að svara spurningum um trú. Þetta sást best í seinustu kosningum þar sem sumir kusu að ljúga sig á ný inn í samfélag trúaðra til þess að forðast rökfræðilega stjórnsýsluflækju.

Að undanskildum ráðherra og nokkrum þingmönnum hef ég ekki hitt marga sem telja mikið vit í núverandi skipan. Ef til vill eru þeir minna áberandi eða kjósa að tjá ekki sínar miður nútímalegu skoðanir. Hins vegar er ekki að sjá að nokkur umræða eigi sér stað meðal stjórnmálamanna og búast má við að ástandið breytist ekki næstu árin.

Kannski er það ástæðan fyrir hve vel þeim líkar sambúðin. Hvort tveggja eru íhaldssamar stofnanir sem virðast lifa sínu eigin lífi áhyggjulausar af skoðunum þegna sinna.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.