Hægrimenn og gróðurhúsaáhrif

Af hverju eru hægrimenn líklegri til þess að vera vantrúaðir á vísindin á bak við gróðurhúsaáhrifin en vinstrimenn? Spurningin um hvort gróðurhúsaáhrifin eru til staðar og hversu mikil áhrif þau munu hafa á hitastig og yfirborð sjávar eru hreinar vísindaspurningar. Það er undarlegt að stjórnmálaskoðanir virðast lita afstöðu manna til slíkra spurninga.

Afstaða manna til hættunar sem stafar af hlýnun jarðar sökum gróðurhúsaáhrifa er mjög mismunandi. Margir eru sannfærðir um að gróðurhúsaáhrifin muni hafa alvarlegar afleiðingar á næstu áratugum og öldum á meðan aðrir telja alls óvíst að gróðurhúsaáhrifin séu til staðar hvað þá að þau hafi alvarleg áhrif.

Það er í sjálfu sér eðlilegt að skoðanir séu skiptar um jafn flókið mál. Það er hins vegar nokkuð undarlegt hversu sterk fylgni virðist vera milli afstöðu fólks til gróðurhúsaáhrifanna og almennra stjórnmálaskoðana viðkomandi. Hægrimenn virðast einhverra hluta vegna vera mun vantrúaðri á gróðurhúsaáhrifin en vinstrimenn. Þetta er einkennilegt þar sem um hreina vísindaspurningu er að ræða.

Það er vitaskuld eðlilegt að hægrimenn og vinstrimenn greini á um hvernig samfélag mannanna eigi að bregðast við gróðurhúsaáhrifunum ef þau eru til staðar og munu valda verulegum usla. En af hverju skyldi afstaða manna til þess hvort gróðurhúsaáhrifin séu á annað borð til staðar ráðast af stjórmálaskoðunum þeirra?

Ég hygg að ástæðan sé að hluta þessi: Hægrimenn jafnt sem vinstrimenn vita að ef gróðurhúsaáhrifin eru til staðar munu þau líklegast leiða til þess að hlutverk ríkisins í samfélaginu mun vaxa. Þessi vitneskja litar afstöðu hægri- og vinstrimanna til vísindanna sem þeir lesa. Hægrimenn gefa niðurstöðum þeirra sem efast um gróðurhúsaáhrifin meira vægi en þau eiga skilið á meðan vinstrimenn gera hið gagnstæða.

Þetta er vitaskuld afskaplega bagalegt fyrir vitræna umræðu um jafn mikilvæga spurningu. En þetta er ef til vill skiljanlegt í ljósi þess hversu sterkar skoðanir margir hafa á gagnsemi ríkisvaldsins. Það er erfitt fyrir frjálshyggjumann að horfa upp á heiminn taka breytingum sem valda því að frjálshyggja verður ekki jafn ákjósanlegur kostur fyrir þá sem vilja hámarka velmegun manna. Alveg eins og það var erfitt fyrir kommúnista og sósíalista að horfa upp á heiminn breytast þannig að veikleikar kapítalismans valda ekki jafn alvarlegum afleiðingum fyrir verkafólk og þeir gerðu fyrir 150 árum.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.