Fellum niður fargjaldið í september

Engum dylst að almenningssamgöngur á Íslandi eru í töluverðum vanda. Því er stundum fleygt að borgarbúar hafi valið einkabílinn – fólkið vill bara keyra. Ég hef alltaf verið því ósammála. Fólkið valdi ekki bílinn, heldur hafa borgaryfirvöld valið hann fyrir okkur, með lélegri stefnu í skipulags- og samgöngumálum.

Engum dylst að almenningssamgöngur á Íslandi eru í töluverðum vanda. Því er stundum fleygt að borgarbúar hafi valið einkabílinn – fólkið vill bara keyra. Ég hef alltaf verið á móti þessari kenningu. Fólkið valdi ekki bílinn, heldur hafa borgaryfirvöld valið hann fyrir okkur, með lélegri stefnu í skipulags- og samgöngumálum. Þannig hafa borgaryfirvöld takmarkað möguleika borgarbúa til að ferðast með öðrum hætti en einkabíl.

Nú er svo komið að Reykjavík glímir við samgönguvanda, og við því þurfa borgaryfirvöld að bregðast strax. Þrátt fyrir breytingar á leiðakerfi Strætó bs., sem voru um margt jákvæðar, hefur viðskiptavinum strætisvagna fækkað. Ástæða þess er sú að þjónustan er stöðnuð. Í skýrslu Hönnunar frá 2006 um samgöngur í Reykjavík er þetta staðfest en þar segir m.a. að allar viðmiðunar borgirnar, nema ein, fjárfesta rúmlega tvöfalt meira en Reykjavík í uppbyggingu þjónustu strætisvagna á ári hverju.

Auðveldlega væri hægt að fjölga viðskiptavinum strætisvagna með því nútímavæða þjónustuna. Bílstjórarnir ættu t.d. að gefa skiptimynt, þetta þekkist erlendis en Strætó bs. hefur ekki séð ástæðu til að bjóða borgarbúum upp á þessa þjónustu. Einnig mætti athuga aðra greiðslumöguleika, t.d. með greiðslukortum. Því næst þyrfti að gefa öllum stoppistöðvunum heiti, en mörgum reynist erfitt að vita hvar þeir eiga að fara út úr vagninum. Í þriðja lagi þarf að gera almenningssamgöngur að fýsilegri kosti, það má t.d. gera með því að fjölga sérakreinum fyrir strætisvagna.

Ein aðalástæða þess að viðskiptavinum strætisvagna hefur fækkað er sú að nýja leiðakerfið hefur ekki verið nægilega vel kynnt. Til að bæta úr því hefur Stúdentaráð Háskóla Íslands gert það að tillögu sinni að borgaryfirvöld felli niður fargjaldið í september. Þannig gæfst borgarbúum betra tækifæri til að kynnast þessum samgöngumáta, en rannsóknir hafa sýnt að fólk er mun næmara á sýnilegan kostnað (e. Out-of-pocket cost) en kostnað sem er lítt sýnilegur, t.d. eins og rekstrarkostnað einkabíls. Því eru fargjöld sérstaklega mikilvægur þáttur í samkeppni í vélknúnum ferðum, þ.e. í vali á milli einkabíls og almenningssamgangna.1

Það að fella niður fargjaldið í september myndi einnig draga úr álagstoppum sem myndast alltaf á haustin þegar skólarnir byrja og meirihluti vinnuafls er kominn úr sumarfríi, en skv. skýrslu Hönnunar eykst heildarumferð að meðaltali um 19% í september. Síðan læra borgarbúar á umferðina og álagið jafnast út eftir því sem á líður hausti. Í nóvember hefur svo dregið verulega úr álagstoppunum. Það er því til mikils að vinna fyrir notendur strætisvagnanna sem og áhugamenn um einkabílinn. Nýjir viðskiptavinir sem gætu unnist í þessum mánuði myndu vonandi halda áfram að nýta sér þjónustuna eftir að gjaldtaka hæfist að nýju í október.

Ég vona því að fulltrúar okkar í borgarstjórn sjái tækifærin í þessum málaflokki, enda voru allir flokkarnir sammála um það í aðdraganda kosninga að bæta þyrfti úr samgöngumálum borgarinnar.

Heimild:
Skýrsla Hönnunar hf. um samgönguskipulag í Reykjavík

Latest posts by Sigurður Örn Hilmarsson (see all)