Riddarar eyðslunnar

Ríkisstjórnin ákvað í gær að gera sitt í því að hægja á framkvæmdum við byggingu tónlistarhúss í Reykjavík. Hafnar eru viðræður við borgaryfirvöld og framkvæmdaraðila og rætt um að fresta opnun byggingarinnar um nokkra mánuði. Best hefði verið ef ríkisstjórnin hefði ákveðið að hætt alfarið við þessa óþörfu og rándýru byggingu en því miður var sú leið ekki farin. Betur má ef duga skal en hið jákvæða er að með þessari ákvörðun hefur ríkisstjórn á táknrænan hátt lagt sitt af mörkum til að slá á þenslu í efnahagslífinu og er það í samræmi við þá ábyrga stefnu sem stjórnvöld hafa markað í efnahagsmálum undanfarnar vikur. En svo komu Dagur og Stefán.

Þarna myndu Stefán og Dagur taka sig vel út

Öllum á óvörum koma fram tveir helstu riddarar eyðslu almannafés og boðuðu að bregðast þyrfti hart við öllum áætlunum um að fresta byggingu tónlistarhússins. Dagur Bergþóruson Eggertsson og Stefán Jón Hafsteinn, borgarfulltrúar Samfylkingarinnar í minnihluta borgarstjórnar, tóku það fram að frestun á framkvæmdum tónlistarhúss væri gott sem hrein aðför að Reykvíkingnum. Ástæðan er sú að það væri algjörlega ótækt að borgarbúar þyrftu að búa við lengi við framkvæmdir á þessu svæði að mati Dags og Stefán sagði að það væri hreinn dónaskapur að koma svona fram og tilkynna ætlun ríkisvaldsins án þess að málið hefði verið tekið upp formlega í borgarkerfinu.

Þessi málflutningur er með hreinum ólíkindum. Það sem er dónaskapur er að skattborgarar voru í öll þessu ferli aldrei spurðir álits frekar en fyrri daginn. Búin var til samráðsvettvangur ríkis og borgar, næst var ákveðið að ráðast í þessa byggingu á grundvelli vinnu undirbúningshóps, útboð haldið og samið við einkahlutafélag um framkvæmd og kostnað. Nær engin umræða fór fram á Alþingi fyrir utan að fjárheimild fyrir ríkisstjórnina var sett í fjáraukalög til að ganga til samninga um byggingu og rekstur tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík á grundvelli útboðs. Hlutur ríkisins var þá áætlaður um 6,5 milljarðar sem greiðast á 35 árum. Fjárstjórnarvaldið á svo enn eftir að samþykkja þessi peningaútlát endanlega. En dónaskapurinn er víst sá að hefja ekki formlegt samráðsferli við Borgarstjórn að mati Stefáns.

En látum þá umræðu liggja á milli hluta að sinni og hversu fáránleg þessi byggingarframkvæmd er. Ríkisstjórn tók þá ákvörðun að fresta framkvæmdum til þess að slá eitthvað á þá þenslu sem verið hefur í samfélaginu. Það er ábyrgð stefna. Þrýst hefur verið mjög á stjórnvöld að grípa til aðgerða. Það dylst engum að ríkisvaldið sjálft hefur átt sinn þátt í að auka á þensluna undanfarin ár með gríðarlegri aukningu á útgjöldum og útvíkkun á starfsemi hins opinbera. Nauðsynlegt er að fjárlög næsta árs endurspegli að hið opinbera ætli sér að draga saman seglin umtalsvert. Það að fresta byggingu tónlistarhúss og öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum er liður í þessari stefnu. Frestunin hefur auðvitað ekki úrslitaáhrif en er einhver sú heppilegasta framkvæmd til að fresta þar sem engin þörf er fyrir húsið.

Þessu eru Dagur og Stefán ekki sammála. Dagur talaði um hagfræðibrandara í fjölmiðlum og vildi meina að þessi bygging sé ekkert á við eina virkjun. Það væri ágætt ef Dagur myndu útskýra þennan lélega hagfræðibrandara ef hann ætlar sér ekki sjálfur að vera brandarinn. En Stefán á enn betri sprett þegar hann segir að ekki sé hægt að láta borgarstjórn líða fyrir efnahagsóstjórn ríkisstjórnarinnar! Einhver gæti sagt að þarna sé verið að kasta steini úr glerhúsi en þetta hljómar frekar eins og frá manni sem er sjálfur búinn að brjóta allt glerið í glerhúsinu og reynir svo að kasta glerbroti að húsinu á bjarginu.

Það sem veldur áhyggjum er að meðan ríkisstjórnin, seðlabankinn og aðilar vinnumarkaðarins
hafa sammælst um að grípa þurfi til aðgerða og jafnvel niðurskurðar ef ekki á illa að fara, þá virðast sveitastjórnarmenn líta þannig á að þeir séu eyland og þurfi ekki að taka neitt tillit til aðstæðna. Þeir segja að ábyrgðin liggi annars staðar og benda á alla aðra en sjálfan sig. Þetta er merkilegt í ljósi þess að skuldir sveitafélaga fara hratt vaxandi á meðan ríkisvaldið hefur greitt niður skuldir. Sveitastjórnir hafa aukið álögur sínar meðan ríkisvaldið hefur leitast við að draga úr álögum sínum á borgaranna. Þessi ótrúlegi og óábyrgi málflutningur sveitstjórnamanna kristallast í orðum þeirra Dags og Stefáns.

Það er ágætt mál að þessir menn séu ekki við stjórn borgarinnar. En nú ríður á að þeir sem kjörnir í vor voru sanni að þeim sé frekar treystandi til að marka ábyrga fjármálastefnu.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.