Yndisleg borg í blíðviðri

Það er yndislegt að ganga um Laugaveginn í blíðviðri eins og verið hefur undanfarna daga. Gatan iðar af lífi, kaffihús fyllast af vegfarendum sem sitja margir úti, ferðamenn þramma um í vindjökkum með kort í hendi og verslun, sérstaklega tengd ferðaþjónustu, blómstrar. Maður fyllist jákvæðni og jafnvel óhóflegri bjartsýni um að það hljóti að vera hægt að gera eitthvað til að fjölga fólki sem sækir miðbæinn, einnig á vindasömum og blautum dögum.

Það er yndislegt að ganga um Laugaveginn í blíðviðri eins og verið hefur undanfarna daga. Gatan iðar af lífi, kaffihús fyllast af vegfarendum sem sitja margir úti, ferðamenn þramma um í vindjökkum með kort í hendi og verslun, sérstaklega tengd ferðaþjónustu, blómstrar. Maður fyllist jákvæðni og jafnvel óhóflegri bjartsýni um að það hljóti að vera hægt að gera eitthvað til að fjölga fólki sem sækir miðbæinn, einnig á vindasömum og blautum dögum.

Mér var hugsað til fjölmennis þegar ég gekk um Laugaveginn áðan. Það er gaman að vera þar sem fólk kemur saman, jafnvel þó að maður þekki engan. Líklegast finnst fleirum það en undirritaðri en Kringlan og Smáralind fyllast jafnan þegar illa viðrar. Mjög mikið er um fólk með ung börn, líklegast áhugalausustu viðskiptavini verslunarmiðstöðvanna. Lítil skott þurfa sína útrás, fá að hlaupa um og kanna hlutina með öllum skilningarvitum. Verslunarmiðstöðvar eru ekki kjörin aðstaða til þess. Fjölga þarf samverustöðum fyrir fjölskyldur. Reyklaus kaffihús með leikhornum væri vísir að slíku en ánægjulegra væri að sjá jafnvel barnasöfn eins og tíðkast víða erlendis. Þar er beinlínis gert ráð fyrir að börn snerti allt, hlusti, sjái og jafnvel smakki !!

Viðfangsefnið er Laugvegurinn og miðbærinn. Oft hefur hvarflað að mér og fleirum, hvort ekki sé hægt að byggja yfir Laugaveginn að hluta. Menn nefna oft að bílastæðahús nær Laugaveginum bjargi málunum en ég efast um að það sé nóg, enda væri aldrei hægt að setja nægileg bílastæði við hverja hinna skemmtilegu verslana sem eru á Laugaveginum, en það virðist þurfa, í það minnsta fyrir undirritaða. Innan slíkrar yfirbyggingar myndu sérverslanir og jafnvel götumarkaðir, blómstra, auk kaffihúsa, enn betur en nú og fjölmenni vera hvernig sem viðrar.

Ekki er víst að slík yfirbygging myndi borga sig fjárhagslega og það sem verra er, sjarmi og hlýja miðbæjarins myndu hugsanlega hverfa. Á falllegum sumardegi í Reykjavík er samt alltaf gaman að láta sig dreyma um hvernig litla borgin okkar getur orðið enn betri.

Latest posts by Guðrún Pálína Ólafsdóttir (see all)

Guðrún Pálína Ólafsdóttir skrifar

Guðrún Pálína hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2002.