Hvað kenndi Zidane okkur?

Það er talið að á bilinu tveir til þrír milljarðar manna hafi séð Zidane skalla ítalska leikmanninn Materazzi sem mun væntanlega fara í sögubækurnar sem eitt alræmdasta atvik knattspyrnusögunnar. En hvaða lærdóm er hægt að draga af atvikinu?

Öll heimsbyggðin stóð á öndinni þegar franski knattspyrnumaðurinn Zinedine Zidane skallaði ítalska leikmanninn Marco Materazzi í framlengingu á úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu. Það er talið að á bilinu tveir til þrír milljarðar manna hafi séð atvikið sem mun væntanlega fara í sögubækurnar sem eitt alræmdasta atvik knattspyrnusögunnar.

Eftir atvikið voru flestir fljótir að dæma Zidane. Var reynt að taka af honum verðlaun sem besti leikmaður heimsmeistarakeppninnar og kepptust menn við að fordæma leikmanninn. Rauður þráður í gegnum fordæminguna var hversu slæm áhrif þetta atvik hafði á öll þau börn sem voru að horfa á úrslitaleikinn og litu kappann aðdáunaraugum. Það er rétt er að líta þá fullyrðingu gagnrýnum augum og skoða þær ályktanir sem raunverulega er hægt að draga af atvikinu. Ef atvikið er skoðað gaumgæfilega kemur í ljóst að skilaboðin sem það sendi til heimsbyggðarinnar voru einkum tvíþætt:

Í fyrsta lagi að ofbeldi borgar sig ekki í knattspyrnu. Óháð þeim áhrifum sem ofbeldið hafði á ung hjörtu þá sáu allir leikmann brjóta með grófum hætti af sér, vera vísað af leikvelli og lið hans tapa úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar í kjölfarið. Það er varla hægt að finna betri kennsluefni til að sýna ungum upprennandi knattspyrnumönnum að ofbeldi borgar sig ekki í knattspyrnu.

Í öðru lagi að munnlegar svívirðingar og rasismi borgar sig hins vegar í hvívetna. Eftir því sem best verður að komist sagði Materazzi ítrekað við Zidane að hann væri sonur hryðjuverkahóru og var þar að vísa til alsírsks uppruna hans. Skilaboðin til ungra upprennandi knattspyrnumanna eru ótvíræð. Þeir sáu leikmann reita annan til reiði með rasisma og svívirðingum um fjölskyldu hans, komast algjörlega upp með það og verða heimsmeistari í kjölfarið.

Það var afar athyglisvert að hlusta á umræður í íslensku sjónvarpi eftir úrslitaleikinn. Voru þar samankomnir miklir knattspyrnuspekingar sem virtust allir vera sammála um að slíkar svívirðingar væru bara hluti af leiknum og að jafn reyndur leikmaður og Zidane hefði bara átt að leiða þær hjá sér. Hvaða skilaboð senda slíkar umræður til ungra áhorfenda?

Þegar svívirðingar og rasismi er orðinn eðlilegur hluti af knattspyrnu þá hlýtur að þurfa að staldra aðeins við. Í því samhengi er rétt að benda á að ef orðaskipti Zidane og Materazi hefðu átt sér stað á Laugaveginum þá hefði Materazi tafarlaust verið ákærður fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Þessi orðræða er einfaldlega ólögleg hér á landi eins og hjá öllum öðrum ríkjum sem hafa fullgilt sáttmála um afnám alls kynþáttamisréttis. Hvernig nokkrum heilvita manni dettur í hug að slíkt sé í lagi í knattspyrnu en ekki á Laugarveginum er ráðgáta.

Það hlýtur að vera kominn tími til að taka hart á rasisma og öðrum svívirðingum innan vallar. Það hefur verið reynt að taka á rasisma hjá áhorfendum með misjöfnum árangri og því ættu ekki sömu reglur að gilda um leikmennina sjálfa? Svívirðingar eru einfaldlega ekki hluti af leiknum, sama hvað knattspyrnuspekingarnir segja. Það má ekki gleyma því að knattspyrna er áhugamál tugmilljóna barna sem eiga að fá jákvæð skilaboð og uppeldi í gegnum íþróttina sem þau eiga síðan að geta tekið með sér út í þjóðfélagið. Hvers konar einstaklinga mun knattspyrna móta ef þetta heldur svona áfram?

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.