Sól sól skín á mig

Hjátrú er skilgreind sem trú á óraunverulega hluti, hluti sem stangast á við vísindi. Það eru vísast ekki margir sem lifa eftir samkvæmt slíkri tilrú í dag, en hjátrú gegndi stóru hlutverki í daglegu lífi landsmanna fyrr á öldum. Það er einmitt í hjátrúnni sem ég tel mig hafa fundið lausnina á þessu hvimleiða rigningarveðri á hásumri.

Veðrið á Íslandi í sumar hefur síður en svo verið til fyrirmyndar. Sólin hefur látið sjá sig í örfáa daga, en annars hefur rigningin ráðið ríkjum. Síðustu sumur hefur hvert metið verið slegið á fætur öðru í sólskini og því ekki við öðru að búast en að það sumar sem ég ákveð að halda mig mestmegnis á klakanum snúist gæfan og veðrið mér í óhag.

Ég hef því ákveðið að taka málið í eigin hendur og rannsaka orsakirnar gaumgæfilega. Fyrst leitaði ég svara í veðurfræðinni, en þar var fátt um svör og jarðvísindi ekki mín sterkasta grein. Þegar ég hafði gefið vísindin upp á bátinn leitaði ég á allt önnur mið.

Hjátrú er skilgreind sem trú á óraunverulega hluti, hluti sem stangast á við vísindi.

Það eru vísast ekki margir sem lifa eftir og samkvæmt slíkri tilrú í dag, en hjátrú gegndi stóru hlutverki í daglegu lífi landsmanna fyrr á öldum. Það er einmitt í hjátrúnni sem ég tel mig hafa fundið lausnina á þessu hvimleiða rigningarveðri á hásumri.

Ég er t.d. viss um það að annar hver maður skilur hrífurnar eftir þannig að tindarnir snúi upp eftir rakstur. Áður fyrr var það útbreidd viska að slíkur kæruleysisfrágangur er ávísun á hellidembu. Eins gerði fólk það ekki að gamni sínu að drepa járnsmiði eða aðrar bjöllutegundir ef það vildi ekki að það færi að rigna. Hvað sólskinið varðar hef ég mínar eigin kenningar. Ég tel nefnilega að árangursríkasta leiðin til þess að tryggja sólskin sé sú að syngja hástöfum sólskinslög upp í himininn. Það var mér að minnsta kosti kennt á skólagöngu minni í Ísaksskóla.

Að öllu gamni og tali um hjátrú slepptu tel ég að rót vandans megi finna í hugarfari Íslendinga. Í landi þar sem að til eru allavega 30 orð yfir rigningarveður er nauðsynlegt að vera vongóður og jákvæður. Ég hef mikla trú á því að eftir því sem brúnin á landsmönnum lyftist dragi ský frá sólu og stytti upp. Lesendur pistilsins hugsa sig þó e.t.v. tvisvar um áður en þeir kremja járnsmið, dauðþreyttir á rigningunni. Þeir örgustu brýna jafnvel raustina og steyta hnefann í áttina að þungbúnum himninum, syngjandi „sól sól skín á mig”!

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.