Ástæða til að fagna?

Fjölmiðla grípa oft á lofti óstaðfestar tölur um fjölda látinna borgara eftir árásir. Sjaldgæfara er að þeir leiðrétti rangfærslur og birti réttar tölur þegar þær koma fram.

Þá vitum við það, fjöldamorðin í Jenín voru ekki fjöldamorð heldur blóðug barátta tveggja stríðandi fylkinga. Þetta kemur fram í skýrslu Kofi Annan, aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt henni létust 52, þar af 14 óbreyttir borgarar. Í nýjasta tölublaði The Economist er lagt út frá þessari skýrslu og umfjöllun fjölmiðla um atburðinn þegar hann átti sér stað og er greinarhöfundur blaðsins lítt hrifinn af stéttarfélögum sínum.

Í blaðinu segir að margir af virtustu fjölmiðlum heims hafi birt tölur sem gáfu í skyn að allt að 500 óbreyttir borgarar hefðu farist í árásinni. Sumir líktu aðgerðunum við útrýmingu gyðinga í Seinni heimsstyrjöldinni. Samt hefur nánast enginn fjölmiðill séð ástæðu til að leiðrétta sig þegar hið sanna er komið í ljós. Franska blaðið sem birti frétt um að öll níu börn Abu Ali hefðu látist lét hjá leiðast að segja frá því að þau eru raunar á lífi. The Economist reynir þó ekki að verja aðgerðir Ísraela sem vissulega voru óþarfar en bendir réttilega á að sjálfsmorðsárásir Palestínumanna eru dæmi um ömurlegustu stríðsaðgerðir sem þekkjast. Heiftúðlegar árásir á óbreytta borgara, ætlaðar til þess að valda sem mestum skaða og vekja upp ótta.

Ísraelskir borgarar eru ekki öfundsverðir af stöðu sinni en þess ber þó að geta að þeir kusu yfir sig þessa stjórn manna sem telja sig hafa lýðræðislegt umboð til að kúga aðra þjóð. Takmarkanir á ferðafrelsi og atvinnufrelsi og niðurskurður á opinberri þjónustu er það vitlausasta sem Ísraelsstjórn gat gert til að lægja ófriðaröldurnar. Sumir halda að vísu því fram að Ísraelsstjórn vilji alls ekki frið, takmark þeirra sé útrýming Palestínu. Ef til vill er það rétt en þá er það lítið annað en endurómur þess tíma þegar Arabaþjóðirnar vildu losna við Ísrael fyrir fullt og allt. Sú afstaða varð til vegna þess að Ísraelsríki var vissulega þröngvað upp á íbúa svæðisins.

Deilan í Ísrael er nógu slæm þótt við ýkjum ekki hörmungarnar. Það er alveg nógu slæmt að 14 óbreyttir borgarar hafi farist í árás eða að þúsundir Palestínumanna hafi dáið í aðgerðum Ísraelsher. Við höfum séð myndir frá Vesturbakkanum og þær tala sínu máli. Upphrópanir sem reynast ósannar eru hins vegar til þess fallnar að gjáin milli stríðandi fylkinga stækkar og enginn botn fæst í vitræna umræðu um málið.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)