Velvakandi hefur náð völdum á Facebook

Þegar ég var krakki kvartaði fólkið í landinu opinberlega í lítinn dálk í Mogganum sem hét Velvakandi. Það var kvartað undan öllu milli himins og jarðar og allir máttu kvarta.

Ég skrifaði sjálf eitt kvörtunarbréf þegar ég var sirka 12 ára. Ég kvartaði yfir því að fólk væri að kvarta yfir því að Carrie eftir uppáhaldið mitt hann Stephen King hafði verið sýnd í sjónvarpinu. Mér fannst þetta góð mynd og ástæðulaust að kvarta undan henni þó hún væri krípí: Hættið þessu væli. Sissy Spacek er frábær. Stephen King er frábær.

Ömurlegt... glatað...
Ömurleg barnaskemmtun, rugl með kínverskar pöndur og þakkir til ritstjóra.

Tíminn leið og tuðarar héldu sig við Velvakanda og heitu pottana í sundi.

Svo fór Rás 2 í loftið árið 1983 og þar með fjölgaði íslenskum útvarpsstöðvum um eina. Einn vinsælasti dagskrárliður rásarinnar var Þjóðarsálin. Þá gat fólkið í landinu hringt inn í beina útsendingu og kvartað og tuðað undan hverju sem var; stjórnmálamönnum, boðum og bönnum, söngvakeppnum, gerningalistamönnum með gipsaða limi, gosbrunninum í tjörninni… jú neim itt.

…þegar fenómenin Velvakandi, Þjóðarsálin og Virkir í athugasemdum skapa það háværa neikvæða umræðu á Facebook, að framkvæmdavaldið lætur kúga sig til meðvirkni með vinsælustu skoðun vikunnar – og framkvæmir svo eftir því?

Konseptið sló í gegn, svo rækilega að einhverjum árum síðar fór í loftið útvarpsstöð sem gerir svo gott sem einvörðungu út á kvart í beinni. Og hún hefur lifað lengur en margar aðrar.

Veflókurinn, persónulega fréttabréfið

Ósáttur

Ég bloggaði fyrst árið 2002. Þá var ég á ferðinni í Kaliforníu og þótti tilvalið að skrifa ferðasögur og birta si svona á netinu. Mikið einfaldara en að skrifa bréf.

Þegar bloggið var nýtilkomið kallaðist það WEBLOG, eða veflókur eins og Siggi vinur minn kallaði það, en síðar breyttist orðið í blogg.

Mínar frásagnir birti ég á Blogspot.com og það gerðu margir fleiri sem rausuðu á eigin forsendum eða sögðu skemmtisögur en ekki leið á löngu þar til MBL.is bauð upp á að hægt væri að blogga við fréttir á vefmiðlinum.

Það er að segja, lesendur, sem höfðu bloggsíðu undir léni mbl.is máttu tjá sig af hjartans lyst um fréttirnar á vefnum en þó alltaf undir fullu nafni og kennitölu.

Úr varð nýtt afbrigði hins íslenska kvartara: Moggabloggarinn.

Komment við fréttir

Árið 2008 starfaði ég á nýjum, sjálfstæðum vefmiðli sem bauð upp á að hægt væri að skrifa stuttar athugasemdir beint undir blogg og fréttir en þetta var gert að fyrirmynd The Guardian og var þá nýnæmi í innlendri vefmiðlaflóru.

Flestir tjáðu sig undir dulnefnum því það þurfti ekki að skrá kennitölu líkt og á mbl.

Það gat verið mikil vinna að fylgjast með ósköpunum og stundum þótti manni með ólíkindum hvað fólk lét flakka í skjóli nafnleyndarinnar. Ad hominem.

Við sem þarna unnum lærðum líka fljótt að sá eða sú sem gaf fyrsta tóninn við frétt hafði oftar en ekki mikil áhrif á orðræðuna sem upp úr spanst, þrátt fyrir að stundum væri um útúrsnúning eða algjöra vitleysu að ræða.

trollÞegar líða tók á þetta sögufræga ár fór kúkurinn í viftuna eins og flestir muna (nema þeir sem voru í blakkáti) og það gersamlega sauð á nafnlausa kommentakerfinu á þessum litla vef.

Heykvísl hefði verið viðeigandi sem táknmynd hins nafnlausa kommentara.

Fólk fór að keppa í hver var reiðastur. Þau sem áður höfðu sefað sig yfir Innlit Útlit fengu nú útrás í reiðivímu. Reiðin komst í tísku. Helvítis fokking fokk.

Við sem þarna störfuðum áttum við nýjan og framandi vanda að etja. Tröllin komu þrammandi yfir hæðina. Hvernig var best að díla við þetta?

Facebook!

Fjórir mánuðir liðu og eins og stundum vill verða leysti málið sig sjálft. Fólkið í landinu hafði jú frá sirka 2007 verið duglegt að skrá sig á nýjan samfélagsmiðil sem var mikið skemmtilegri en Friendster og MySpace.

Facebook var vinabærinn þar sem óminnugir á nöfn gátu flett upp andlitum. Þar var líka hægt að fylgjast með ættingjum í útlöndum, póka og tjatta. Virkilega skemmtilegt.

Við sveiflumst líka til í skoðunum eins og síldartorfa í hafinu eftir einhverju torræðu segulmagni og getum með leifturhraði skotist frá hægri til vinstri. Úr ofur peppaðri jákvæðni yfir í sótbrjálaða neikvæðni.

Í febrúar 2009 var svo LIKE takkinn kynntur til sögunnar en með honum gat notandi Facebook sýnt hvað honum líkaði (eða ekki) á netinu, skrifað við það athugasemdir og skýringar og deilt á eigin tímalínu eða við frétt/blogg á vefmiðli. Semsagt, Velvakandi online – og það besta/versta 👍👎…

Það þurfti engan ritstjóra til að ákveða hvað var birt og hvað ekki. Það var heldur enginn þáttastjórnandi Rásar 2 sem skellti á þig þegar þú fórst að froðufella. Orðið varð algjörlega taumlaust og seinna, þegar við urðum sítengd við símana, – þá varð það gersamlega ALLSSTAÐAR líka.

Og síldartorfan sveiflast

Eins og flestir vita er fólkið í litla landinu okkar mjög áhrifagjarnt enda þroski þjóðarsálarinnar á gelgjuskeiði.

Okkur finnst hrikalega næs að hafa skoðanir og viðra þær sem oftast. Deila, hnakkrífast jafnvel. Unglingar eru jú tilfinningaverur.

Fish-avoid-whale-shark

Við sveiflumst líka til í skoðunum eins og síldartorfa í hafinu eftir einhverju torræðu segulmagni og getum með leifturhraði skotist frá hægri til vinstri. Úr ofurpeppaðri jákvæðni yfir í sótbrjálaða neikvæðni.

Við elskum til dæmis fulltrúa Íslands í Eurovision út af lífinu áður en aumingjans manneskjan leggur af stað úr landi og hötum svo viðkomandi eins og landráðamann þegar hann/hún snýr aftur með skottið milli lappanna, búinn að „skít tapa“.

Línan milli ástar og haturs Íslendinga á fræga fólkinu sínu er oftast alveg næfurþunn. Það sama gildir um valdamennina. Við dýrkum þessa einstaklinga fyrir kosningar en breytumst í grimma harðstjóra um leið og þau stimpla sig inn til vinnu eftir kosningar.

virkir

Dómstóll götunnar með höfuðstöðvar á Facebook

Einhvernveginn sýnist mér þetta hafa þróast svo hjá þessari litlu öfgaþjóð að það skipti stundum meira máli að velja sér skoðun (a eða b) og koma henni sem fyrst á framfæri á Facebook, en að kynna sér málin til hlýtar og kveða svo upp ígrundaðan dóm.

Yfirleitt fúnkerar þetta skoðana-festival sem nokkuð saklaust félagsfræðidæmi um fólk sem vill tilheyra einhverjum hópi og stimpla sig þar inn, – en ef þetta rafræna skoðana festival verður allt í einu æðsti dómstóll landsins, með höfuðstöðvar á Facebook, erum við þá ekki komin út á hálan ís?

Þurfum við kannski að kroppa smá í naflakuskið og stunda, þó ekki sé nema oggulitla, sjálfstæða sjálfskoðun þegar fenómenin Velvakandi, Þjóðarsálin og Virkir í athugasemdum skapa það háværa neikvæða umræðu á Facebook, að framkvæmdavaldið lætur kúga sig til meðvirkni með vinsælustu skoðun vikunnar – og framkvæmir svo eftir því?

Ég er ekki frá því… svei mér þá. Mér finnst þetta að minnsta kosti ekki lofa góðu og ætla sjálf að telja hægt frá tíu niður í núll og rýna vel í merginn áður en ég sendi mitt næsta framlag af skoðun út í síldartorfuna.

Margrét Hugrún skrifar

Margrét byrjaði að blogga árið 2002 og hefur verið óstöðvandi á þessu sviði allar götur síðan. Hún starfaði lengi sem blaðakona en þar áður var hún til dæmis plötusnúður og útvarpskona. Nú brasar hún í PR, vef og markaðsmálum hverskonar.