Neanderdalskonan er tákn nýrra tíma

Fyrir stuttu sá ég mynd af Neanderdalskonu sem er svosem ekki í frásögur færandi fyrir utan það að fram að því hafði ég bara séð myndir af Neanderdalskörlum. Miðað við grunnþekkingu á því hvernig tegundir fjölga sér myndi ég varlega áætla að það hafi verið álíka margar konur og karlar til að viðhalda tegundinni, nema þarna sé komin skýringin á því hvernig fór fyrir Neanderdalsmönnum.

Af einhverjum ástæðum virðist karlkyn yfirleitt vera hið sjálfgefna kyn í aðstæðum þar sem ekki skiptir máli hvort kynið er sýnt. Til dæmis voru nánast allir brandarar sem ég lærði sem barn um einhverja kalla, nema auðvitað ljóskubrandarar. Um daginn sagði ég sex ára dóttur minni hinn sígilda brandara um vinnumennina Við og Vind. Í minni útgáfu var bóndakona sem réð þá sem vinnumenn og endaði hún svo á að leysa Vind og reka Við. Ég biðst afsökunar á að eyðileggja punch line-ið ef einhver hefur ekki heyrt þennan brandara. Nokkrum dögum síðar kom dóttir mín frekar skúffuð til mín og sagðist hafa lesið sama brandara í blaði og þar var þetta bóndi sem réð vinnumennina. Var þetta álitin klár sögufölsun hjá móðurinni.

Annað dæmi eru persónur í Hollywood kvikmyndum en þar eru að meðaltali tvær karlpersónur á móti hverri kvenpersónu samkvæmt upplýsingum á Wikipedia síðu Bechdel prófsins. Bechdel prófið er mælikvarði sem ætlað er að sýna kynjahalla í kvikmyndum. Skilyrðin til að standast Bechdel prófið eru þrjú: 1) Það þurfa að vera a.m.k. tvær konur í myndinni, 2) þær þurfa að tala hvor við aðra og 3) þær þurfa að tala um eitthvað annað en karlmann. Af stærstu 50 kvikmyndum ársins 2013 stóðst um helmingur þessi mjög svo hógværu skilyrði samkvæmt samantekt fréttasíðunnar Vocativ. Hér er ekki einu sinni verið að tala um að þessar myndir fjalli endilega um konur heldur aðeins að tvær konur í myndinni eigi eðlilegt spjall um annað en karlinn sem líklega er aðalsöguhetjan. Það virðist einnig algengara að strákar séu söguhetjur í teiknimyndum fyrir börn. Svo er mögulega ein vinkona eða stelpa sem söguhetjan er skotinn í. Undantekningin eru auðvitað prinsessumyndirnar, þar fær stelpa að vera söguhetjan.

Ég fæ stundum á tilfinninguna að gengið sé út frá því að bæði strákar og stelpur geti samsamað sig með karlkyns söguhetju en kvenkyns söguhetja höfði bara til stelpna. Það gæti tengst því að strákar eru oftar sýndir í jákvæðara ljósi en stelpur eins og algeng orðatiltæki bera vitni um s.s. „kastar eins og stelpa,“ „hleypur eins og stelpa“ og „grenjar eins og stelpa.“ Finna má mýmörg dæmi um þetta á netinu, í fjölmiðlum og í daglegu lífi.

Neanderdalskonan er tákn nýrra tíma, eins kaldhæðnislega og það hljómar. Þetta er að breytast hægt og rólega. En á meðan er ágætt að vera vakandi og leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að börn alist upp við að báðum kynjum sé gert jafnhátt undir höfði.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.