Mér finnst ekkert spes að deyja

Efri hæðin á þeim ágæta stað Sirkus er enn lifandi fyrir mér. Ég sé fyrir mér sjuskaðar innréttingarnar og hver gat setið hvar. Sama gildir um nokkra skúra hjá VR-II sem geymdu m.a. félagsaðstöðu stærðfræði- og eðlisfræðinema. Þar kynntist ég kærustunni minni og mörgum af mínum bestu vinum. Hvað mig varðar er ekkert af þessu er horfið. Maður á alltaf minningarnar. Og staðirnir eru ekkert horfnir úr tímarúminu þótt við, aumar þrívíðar verur, hættum að geta notið þeirra.

Er einhver munur á stað sem sannarlega er horfinn og stað sem enn er til en við höfum ekki heimsótt í áraraðaðir? Afskaplega margt hefur breyst á mínum æskuslóðum í pólska bænum Sanok sem ég bjó í áður en ég flutti til Íslands. Á leið minni í skólann var brú sem fór illa út úr flóði og var rifin í kjölfarið. Ég bjó í húsi sem var í miðju útisafni. Hluti safnsins brann árið 1994. Ég man safnið enn eins og það var fyrir brunann. Kannski hefur margt annað breyst líka. Ætli það skipti máli fyrir gildi minninganna?

Manni getur þótt vænt um fólk sem maður hittir mjög sjaldan. Maður getur vitað (eða í það minnsta þóst vita) að fólki þyki vænt um mann þótt það fólk hitti mann mjög sjaldan. Þannig getur manni alveg eins þótt vænt um einhvern sem er dáinn og maður getur ímyndað sér að dánu fólki þykir vænt um mann. Það er vitanlega alltaf bara ímyndun og kannski ágætt að reyna ekki telja sér eða öðrum trú um annað, en hins vegar eru venjulegar minningar svosem hugarfóstur líka. Flestir kannast við tilfinningu að horfa á gamla mynd sem maður hefur séð áður og komast að því að hún sé kannski dálítið öðruvísi en mann minnti.

Líklegast mun ég sjálfur deyja einhvern tímann og (ef ég verð er heppinn, þ.e. langlífur) horfa upp á fullt af fólki sem mér þykir vænt um deyja. Ekkert af þessu er satt að segja neitt sérstaklega spes. Flestir reyna að mynda sér einhver hugmyndakerfi til að telja sér trú um að þetta sé samt bara allt í lagi. Mín máttvana tilraun til þess er þessi: Maður var það sem maður var og gerði það sem maður gerði. Það er ekkert að fara neitt. Líkt og sólin hverfur ekki á nóttunni, þótt sumir hætti að geta notið hennar.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.