Leikur aldarinnar er í kvöld, í alvörunni

Það líður varla sú vika að ekki sé einhver íþróttaviðburður auglýstur sem „eitthvað aldarinnar.“ Þetta er orðin svo mikil klisja að drengurinn sem kallaði „úlfur, úlfur“ er farinn að líta út fyrir að vera varkárnin uppmáluð. En það ætti að vera óhætt að hætta að auglýsa „leiki aldarinnar“ því leikur aldarinnar verður háður í kvöld í bandarísku hafnaboltadeildinni. Enginn annar íþróttaviðburður í manna minnum kemst nálægt dramatíkinni sem þá verður boðið upp á. Á miðnætti að íslenskum tíma hefst nefnilega sjöundi leikur í úrslitaviðureign Chicago Cubs og Cleveland Indians.

Hafnaboltaíþróttin hefur reyndar mátt muna sinn fífil fegurri í bandarískri íþróttaflóru; nú um stundir er ameríski fótboltinn allsráðandi og körfuboltinn fylgir í kjölfarið. En þetta gæti allt snúist við. Ameríski fótboltinn er á hraðri niðurleið, áhorf á leiki hefur hrunið og eru sérfræðingar á einu máli um að leikir nýhafinnar leiktíðar séu að jafnaði með því lélegra sem sést hefur um langa hríð.

Og nú býður hafnaboltinn upp á leik aldarinnar og ekki ólíklegt að hann marki upphaf nýrrar sigurgöngu íþróttarinnar. Hörmungarsaga Chicago Cubs hefur áður verið rakin á Deiglunni. Liðið leikur nú til úrslita í fyrsta skipti frá árinu 1945 en félagið hefur ekki sigrað í bandarísku hafnaboltadeildinni síðan árið 1908, eða frá því að Íslendingar deildu hatrammlega um „uppkastið.“

Hinir lánlitlu Indjánar frá Cleveland eiga sér litlu skárri sögu. Félagið varð síðast meistari árið 1948—og ef ekki væri fyrir Cubs þá væri það langlengsta titlaþurrð bandaríska hafnaboltans. Sorgarsaga Cleveland Indians náði líklega hæstu hæðum um miðjan tíunda áratuginn þegar liðið komst tvisvar í World Series (úrslitin) en tapaði í bæði skiptin. Árið 1997 þegar liðið var hársbreidd frá því að tryggja sér sigur, var með 2–1 forystu þegar níunda og síðasta lota í oddaleiknum gegn Florida Marlins hófst. Cleveland missti leikinn niður í jafntefli og tapaði svo í framlengingu. Ekkert annað lið í sögu hafnaboltans hefur glutrað niður slíkri stöðu.

Dramatíkina hefur heldur ekki vantað í þessari úrslitakeppni. Fyrstu tveir leikirnir fóru fram í Cleveland og skiptust liðin á sigrum. Næstu þrír leikir voru háðir í Chicago. Cleveland gerði sér lítið fyrir og vann fyrstu tvo leikina á útivelli og höfðu þar með unnið 3 leiki gegn einum sigri Chicago; og vantaði aðeins að vinna einn leik í þremur tækifærum til þess að tryggja sér fyrsta tiltilinn í 68 ár.

En Clevelendingar eru ýmsu vanir. Körfuboltalið þeirra, Cleveland Cavaliers, lenti 3-1 undir í úrslitakeppni NBA deildarinnar síðasta vor, en tókst að klóra sig upp úr þeirri djúpu holu og vinna Golden State Warriors þrisvar í röð og tryggja sér titilinn.

Og nú hótar Chicago Cubs að leika sama leik í hafnaboltanum og Cleveland gerði í körfuboltanum. Chicago hefur unnið tvo leiki í röð. Staðan er 3–3 og í kvöld ráðast úrslitin endanlega.

Cleveland fékk loks að smakka á sigurveigum í bandarískri íþrótt síðasta vor. Fögnuðurinn yfir sigrinum í NBA var gríðarlegur. Talið er að 1,3 milljónir manna hafi tekið þátt í fagnaðarlátunum þegar Lebron James og félagar keyrðu niður breiðstræti borgarinnar með bikarinn á fanginu.

Það mun hins vegar blikna í samanburðinum við fögnuðinn í Chicago ef Cubs tekst að vinna í fyrsta skiptið í 108 ár. Enginn sem nú er á lífi man eftir því þegar Chicago vann síðast, en af myndum af áhorfendum að dæma þá eru ófáir sem virðast beinlínis halda sér á lífi til þess eins að sjá liðið sitt loksins vinna titilinn. Hafnaboltinn er nefnilega eina bandaríska íþróttin sem kemst nálægt knattspyrnunni hvað varðar tilfinningahita. Ef Cubs vinnur í kvöld munu milljónir manna fagna eins og stríði hafi lokið—og þeir verða ófáir aðdáendur liðsins sem munu telja sig loksins getað dáið í sátt við sköpunarverkið.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.