Einlægar athugasemdir reykingafasista

Ég hef lengi verið mikill andstæðingur tóbaksreykinga. Ég hef verið kölluð reykingafasisti og Þorgrímsdóttir og móðgast ekki við það; þvert á móti. Ég hef glöð lagt baráttunni lið og eftir að reykingafólki var loks úthýst af kaffihúsum og skemmtistöðum, þræddi ég kaffihús til þess eins að styrkja verta og afsanna dómsdagsspár reykinga-klappliðsins. Ég hef jafnvel hampað Kaliforníu-leiðinni, enda útópísk útfærsla í mínum augum.

Fyrir nokkrum árum síðan las ég síðan Bakþanka Fréttablaðsins sem breyttu myndinni. Þankarnir fjölluðu á kómískan hátt um reykingafólk, samfélag reykingamanna og þróun tóbaksreykingamála. Pistlahöfundur klykkti út með orðum sem hafa setið í mér síðan. Orðin voru þau að reykingafólk væri „einlægt í tillitsleysi sínu gagnvart öðru fólki.“ Mér fannst þetta stórkostleg athugasemd! Síðan ég las þetta hef ég farið með þessa þulu fyrir sjálfa mig og aðra mjög reglulega. Enda fannst mér höfundurinn hitta naglann svo rækilega á höfuðið. Einlægt tillitsleysi reykingafólks!

Allt í einu meikaði þetta allt sens: Öll þau skipti sem ég hafði, með óánægjusvip, staðið fyrir utan strætóskýli í grenjandi rigningu meðan að reykingamanneskja naut skýlisins ein og óáreitt í faðmlögum við sígarettuna með tilheyrandi óþef. Árin sem ég vann á matsölustað og þjónaði reykingafólki til borðs sem jafnvel blés yfir mig reyk í þá mund er ég lagði diska á borðið eins og ekkert væri eðlilegra. Reykingafólkið sem stóð í kuldanum í hnapp fyrir utan anddyri Kringlunnar á fyrstu hæð hjá Hagkaupum svo að maður þurfti að olnboga sig gegnum hópinn og reykinn til þess að komast leiðar sinnar. Allt þetta fólk sem ég hafði bölvað í sand og ösku í öll þessi ár, það vissi einfaldlega ekki betur! Það skildi ekki afstöðu mína til þeirra og hafði ekkert illt í hyggju þar sem það fyllti svört lungun af tóbaksreyk og krabbameinsvaldandi efnum og spúði sömuleiðis yfir mig hvar sem ég flæktist fyrir því.

Þessi afstaða mín hefur aftur tekið stakkaskiptum. Ég trúi ekki á hið einlæga tillitsleysi reykingafólks nema að takmörkuðu leyti. Það orsakast af tveimur persónulegum ástæðum, annars vegar þeim að upplifa það að vera ófrísk og hins vegar að eiga barn. Það að hafa gengið inn og út af barnaspítalanum og kvennadeildinni, ýmist ófrísk eða með ungabarn, gegnum reykjarmökk reykingafólks sem fyrir alla muni vill ylja í sér við anddyrin í skjóli frá veðrum og vindum hefur fengið mig til þess að hugsa þetta dæmi upp á nýtt. Reykingafólk er ekki einlægt í tillitsleysi sínu. Því er einfaldlega alveg sama. Það er ályktun sem ég dreg af því að hafa margsinnis þurft að gera athugasemd í þessa veru við reykingafólk og uppskorið furðuleg viðbrögð. Ég hef sent ófáa kvörtunarpósta til fyrirtækja sem stilla upp við anddyri sín svokölluðum „stubbahúsum“, til þess að auðvelda þessum 11-12% íslenskra reykingamanna lífið. Skítt með þau 88-89% sem upplifa „fylgifnykinn“, eins og bakþankahöfundurinn góði komst að orði.

Og nú spyr ég: Þurfum við ekki að láta endanlega af einlægri tillitssemi í garð reykingafólks?  Vilja ekki 48.120 manneskjur kvitta undir það?

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.