Ég meinti vel þegar ég bannaði þér að opna pítsastað

Það að menn greiði erlendu starfsfólki laun svart eða undir kjarasamningum er ekki eitthvað óleysanlegt vandamál. Við erum með ríkisskattstjóra, stéttarfélög og dómstóla. Fólk ætti að geta sótt rétt sinn í dómskerfinu. Það er þekkt mál frá Danmörku þar sem stéttarfélög lögsóttu verktaka sem voru með pólska verkamenn í vinnu við að byggja Metro. Þeir unnu, verkamennirnir fengu margra mánaða yfirvinnu greidda.

Því miður er leiðin oftast önnur, allir fara að hugsa upp ný og íþyngjandi lagaúrræði sem koma verst niður á útlendingunum sjálfum. Árið 2008 var útlendingum utan EES til dæmis bannað að vera með rekstur á eigin kennitölu. Jú, jú, eflaust var einhver að misnota verktakagreiðslur, en það gildir líka þegar Íslendingar eða EES-borgarar eiga í hlut og ríkisskattstjóri á að hafa leiðir til að bregðast við því. En nei, bara banna þetta.

Regluverk um atvinnuþátttöku útlendinga á Íslandi er of íhaldsamt. En ástæða þess er ekki sú að rasistar hafi hreiðrað um sig á öllum stigum löggjafarvalds, stjórnsýslu og atvinnulífs. Oftar en ekki er ástæða íhaldseminnar fólgin í áhyggjum af velferð útlendinganna sjálfra. Að þeir fái of lág laun, að að þeir vinni við vondar aðstæður.

Menn tala stundum um „góða fólkið“. Eðlilega finnst mörgum furðulegt þegar það er orðið vont að vera góður. En það er þó broddur í þessari orðnotkun. Það er nefnilega þannig að góður ásetningur skiptir engu máli ef niðurstaðan er vond fyrir þann sem fyrir henni verður. Ef maður getur ekki lengur stofnað eigin pítsastað, þrifið löglega gegn greiðslu og þarf að ganga með skilríki á sér öllum stundum er manni slétt sama hvort sá sem setti þessar skorður á líf manns hafi meint vel eða illa.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.