Ég held að Jóhanna Sigurðardóttir hati ekki veikt fólk

Kári Stefánsson ræðst að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hafa haldið aftur af vexti heilbrigðisútgjalda eftir hrunið. Þetta er ósanngjörn gagnrýni og lýsir fremur þröngri sýn á ríkisfjármálin, sýn þar sem heilbrigðisútgjöld eru eini mælikvarði á gæsku stjórnvalda, óháð öllum ytri aðstæðum.

Hið opinbera eyðir aðallega peningum í þrennt: Heilbrigðismál, félagsmál og menntamál. Hitt eru smærri útgjöld.

Tökum fyrst félagsmálin. Árið 2007 eyddi ríkið 1,6 milljarði í aðstoð við atvinnulausa. Árið 2010 var talan 25,7 milljarðar. Um þessa breytingu réði stjórn Jóhönnu litlu sem engu um. Atvinnuleysi margfaldaðist. Fullt af fólki þurfti að reiða sig á ríkisaðstoð sem gat venjulega án hennar verið. Hefði Kári Stefánsson viljað skera niður þessi útgjöld og látið fólk svelta?

Tökum næst menntamálin. Þekkt er að menntastofnanir fyllast í kreppum. Árið 2007 voru 9,5 þúsund nemendur í HÍ. Árið 2010 voru þeir 13,6 þúsund. Átti að neita öllu þessu fólki um inngöngu í háskóla? Það var ekki gert. Enda jukust útgjöld til menntamála úr 37 milljörðum í 47 milljarða á þessum þremur árum.

Á þessum sama tíma jukust útgjöld til heilbrigðismála úr 95 milljörðum í 112 milljarða. Það er vissulega niðurskurður að teknu tilliti til verðlags (sem hækkaði um 30% á þessum tíma) en menntaútgjöld duttu líka niður sé þannig reiknað, þrátt fyrir stóraukna notkun á kerfinu.

Stærsti hluti kostnaðar ríkisins eru laun. Þeir sem vilja hnýsast um tekjur lækna geta gert það í tekjublöðunum og komist að því að laun langt umfram milljón eru ekki óalgeng. Stór hluti þessara peninga kemur úr opinberum sjóðum. Er það mat Kára Stefánssonar að launafrysting þessa hóps hafi verið ranglátari aðgerð en annað sem til greina kom? Hefði frekar átt að vísa fólki úr háskólum, menntaskólum eða lækka atvinnuleysisbætur?

Hvað annað? Hefðum við átt að taka lán? Fólk vildi ekki lána okkur. Auka tekjur? Ja, allir skattar voru hækkaðir en allir skattstofnar skruppu saman.

Það er ekki til sá málaflokkur sem ekki gæti orðið betri með meiri peningum. En veruleikinn var eins og hann var. Þegar ríkisstjórn stendur frammi fyrir gríðarlegum tekjumissi, stórauknum vaxtagjöldum og útgjöldum til félagsmála er ekki með sanngjörnum hætti hægt að saka hana um að hola heilbrigðiskerfið að innan af ásetningi eða gáleysi þótt svo hún reyni að halda aftur að vexti þess.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.