Borgaralaun ganga ekki upp

Á einn hátt eru hugmyndir um borgaralaun rökréttar út frá norrænum hugmyndum um velferðarkerfið. Í miðevrópskum velferðarkerfum á fólk t.d. rétt á heilbrigðisþjónustu út af einhverri ástæðu. Launamenn eru tryggðir af vinnuveitendum, sjálfstætt starfandi tryggja sig sjálfir, börn eru dekkuð af af tryggingu foreldranna og atvinnulausir af ríkinu. Allir eiga rétt á tryggingu, bara af ólíkum ástæðum. Norræna módelið tryggir alla, punktur.

Það væri strangt til tekið rangt að kalla þetta skilyrðislausa heilbrigðistryggingu. Öll kerfi þurfa einhverja afmörkun á því hvern þau dekka og hvern ekki. Að lágmarki er oft miðað við einhverjar reglur um búsetu eða ríkisfang. En munurinn er kannski að norrænu reglurnar um rétt til ríkisrekinnar heilbrigðistrygginar eru einfaldari og byggja ekki á tekjum, eignum, stöðu á vinnumarkaði, námsárangri eða þess háttar.

Þetta hefur reynst vel. Aðalkosturinn er að þetta útilokar ýmsa furðuhvata eins og þá að atvinnurekendur ráði fólk eftir heilsufari, aldri eða barnafjölda. Þetta minnkar líka líkurnar á að fólk forðist að skipta um vinnu af ótta við að missa einhver áunnin réttindi hjá vinnuveitenda sínum.

***

Á þann hátt  má hafa samúð með hugmyndinni um “skilyrðislausa” framfærslu, hugmyndinni um að allir fái pening greiddan inn á reikning í hverjum mánuði, óháð öllu, og að önnur kerfi hverfi þar með. Hugmyndin byggir á svipaðri hugsun og annað í norrænum velferðarkerfum.

En hugmyndin gengur ekki bara upp. Hún er of dýr. Ef við slumpum á að 200 þúsund Íslendingar ættu að fá 300 þús kr. á mánuði frá ríkinu þá eru það útgjöld upp á 720 milljarða. Það er skemmtilegt því það eru nokkurn veginn upp á krónu sama upphæð og ríkið hefur í tekjur á hverju ári. Semsagt, ef ríkið ætlaði sér að greiða öllum laun sem dygðu til framfærslu þá gæti það ekki gert neitt annað. Ekki rekið skóla, spítala, lögreglu, leikhús, félagsaðstoð eða lagt vegi. Ekkert. Bara borgað borgaralaun.

En segjum nú að við myndu skyndilega uppgötva botnalausar olíulindir sem myndu tvöfalda skatttekjur ríkissjóðs. Myndum við þá ákveða að eyða þeim í borgaralaun?

Endurorðum spurninguna: Er það skoðun okkar að næsta lausa króna sem ríkissjóður kemst yfir eigi að fara í bætur handa fólki sem við höfum hingað til ákveðið að þurfi ekki á bótum að halda?

***

Stundum gleymist að, ólíkt til dæmis Bandaríkjunum, erum við Íslendingar í reynd með tryggðan rétt til lífsviðurværis og það samkvæmt stjórnarskrá. Við erum því ekki á þeim stað í umræðunni að velta því fyrir okkur hvort við viljum aðstoða fólk sem þarf á aðstoð að halda. Allir eru sammála um það.

Ég á erfitt með að skilja af hvernig fólk sem almennt telst til vinstri styður hugmyndir um stórfelldar bætur handa fólki sem þarf ekki á þeim að halda. Helst dettur mér í hug að það líti á það sem heilagan kaleik hinna opinberu útgjalda… að bókstaflega ALLIR verði á framfærslu ríkisins.

Eitthvað hlýtur það að vera, því ekki er hugmyndin vinstrisinnuð í venjulegum skilningi, hún stuðlar ekki að meiri jöfnuði. Í þessu hreinustu útgáfu þessa kerfis er ekki hægt að hækka tekjur fátæks manns öðruvísi en að hækka tekjur forstjóra stórfyrirtækis um jafnmikið.

Hér komum við að næsta vandamáli við hugmyndina um borgaralaun. Hún er heldur ekki nógu réttlát og stærsti meinti kostur hennar, einfaldleikinn gæti aldrei fengið að standa óáreittur til lengdar. Menn myndu fljótlega þurfa að tekjutengja borgaralaun og flækja kerfið á ýmsan hátt.

***

Er þá ekkert varið í þessa hugmynd? Hún hefur kannski einhverja punkta. Berum þetta aftur saman við heilbrigðiskerfið. Heilbrigðisútgjöldin á Íslandi eru ekki skilyrðislaus. Tryggingin er það. Framfærsla er hins vegar tryggð í gegnum atvinnuleysisbætur og síðan fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Atvinnuleysisbætur eru skilyrt réttindi og menn fá þær heldur ekki greiddar nema að mæta hingað og þangað og gera hitt og þetta.

Hugsanlega mætti hugsa sér kerfi þar sem ríkið sæi öllum fyrir tekjutryggingu með sama hætti og það sér öllum fyrir heilbrigðistryggingu. Í þannig kerfi væri ekki þörf fyrir fjárhagsaðstoð sveitafélaga, allir væru tekjutryggðir óháð fyrri stöðu á vinnumarkaði, og fólk í atvinnuleit þyrfti ekki að staðfesta atvinnuleit til að detta ekki út af bótaskrá. Hvatningin til að finna sér vinnu fælist fyrst of fremst í von um hærri tekjur. Kannski gæti einhver svona leið einfaldað flókinn bótafrumskóg og fækkað ógegnsæjum fátæktargildrum. Það má svo sem skoða svo lengi sem slíkt kerfi myndi ekki þenja út ríkisútgjöld. En hrein peningagjöf handa öllum er fáranlega dýr og ekkert sérlega réttlát aðgerð.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.