„Þú mátt ekki eiga þennan gjaldeyri!“

Öskra starfsmenn seðlabankans á meðan þeir hrista klinkið úr vösum íslenskra ferðamanna við heimkomu í Leifsstöð. Gjaldeyrishöftin eru kannski ekki svona slæm en stundum sé ég þetta fyrir mér svona. Reglurnar eru nefnilega nokkuð kómískar. Bannað er að eiga gjaldeyri nema ef þú ert að fara erlendis þá máttu fá smá en þá er bannað að taka með krónur því að þær má bara nota innanlands. Ég veit ekki með ykkur en mér finnst þetta hálf kjánalegt.

Öskra starfsmenn seðlabankans á meðan þeir hrista klinkið úr vösum íslenskra ferðamanna við heimkomu í Leifsstöð. Gjaldeyrishöftin eru kannski ekki svona slæm en stundum sé ég þetta fyrir mér svona. Reglurnar eru nefnilega nokkuð kómískar. Bannað er að eiga gjaldeyri nema ef þú ert að fara erlendis þá máttu fá smá en þá er bannað að taka með krónur því að þær má bara nota innanlands. Ég veit ekki með ykkur en mér finnst þetta hálf kjánalegt.

Fjármálaráðherra hefur oft sagt að gjaldeyrishöftin séu það helsta sem standi í vegi fyrir heilbrigðu viðskiptalífi á Íslandi og ég tel að hann hafi rétt fyrir sér. Hann hefur líka margsinnis sagt að hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin innan tíðar en jafnframt aldrei nefnt einstaka dagsetningu. Þá hefur ráðherra nefnt aðgerðir og áætlanir sem enginn hefur fyllilega útskýrt fyrir þjóðinni. Takmarkið er vissulega jákvætt en hingað til bendir lítið til þess að við séum að nálgast það.

Til að mynda eru aðgerðir Seðlabanka Íslands gegn erlendum séreignalífeyrissparnaði algerlega á skjön við yfirlýsingar fjármálaráðherra en þær herða gjaldeyrishöftin enn frekar. Auk þess sagði Bjarni Benediktsson í viðtali við sjónvarpsstöðina Bloomberg að krónan þyrfti alltaf að búa við ákveðin höft sökum smæðar sinnar sem er líka í andstöðu við fyrri ummæli hans. Við verðum því að spyrja hvort að mögulegt sé að afnema gjaldeyrishöftin á næstunni? Að mínu mati virðist svarið vera nei.

Af hverju er þetta afstaða mín? Krónueignir erlendra aðila er talin í þúsundum milljarða, Seðlabankinn er algerlega ófær um að greiða þennan gjaldeyri og ríkisstjórnin hefur ekki gefið til kynna að kröfuhafar séu tilbúnir að afsala sér þeim eignum sem þyrfti til að brúa bilið. Auk þess er aldrei talað um íslenska fagfjárfesta, lífeyrissjóði og fjármagnseigendur sem munu sækja stíft á erlenda gjaldeyrismarkaði þegar tækifæri gefst enda er krónan ekki beinlínis sögulega stöðugur gjaldmiðill. Í tilfelli lífeyrissjóða er það hreinlega lagaleg skylda þeirra að fjárfesta erlendis. Því þætti mér vænt um að heyra hvernig í ósköpunum fjármálaráðherra ætlar að afnema gjaldeyrishöftin.

Í mínum huga eru einungis þrír möguleikar í stöðunni. Niðurgreiðslu til þeirra sem vilja selja krónu sem mun taka tugi ára og líklega aldrei klárast. Önnur aðferðin afnema höftin strax, láta krónuna falla og taka á sig verðbólguskotið sem yrði annað hrun fyrir íslenskt atvinnulíf. Þriðja leiðin er gjaldeyrissamstarf með erlendu ríki hvort sem það er Evrópusambandið, Bandaríkin, Noregur eða annar aðili. Allar þessar leiðir hafa kosti og galla en persónulega tel ég að sú þriðja henti best. Hvað sem því líður þá vona ég að ríkisstjórnin sé búin að ákveða hvað kostur henti Íslendingum. Ég hef bara enga trú á því að svo sé.

Latest posts by Einar Leif Nielsen (see all)

Einar Leif Nielsen skrifar

Einar Leif hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2008.