10 ástæður fyrir því að allir viti bornir menn ættu að gerast fanatískir hafnarboltaaðdáendur

Öðru hverju—en þó ekki oft—kem ég sjálfum mér á óvart. Eftirminnilegt dæmi um það er þegar ég varð heltekinn af bandarískri sjónvarpsþáttaröð um hóp ungmenna sem bjó saman sumarlangt í lítilli og heldur óhrörlegri íbúð í litlum bæ í New Jersey í Bandaríkjunum. Þátturinn var nefndur eftir bænum—Jersey Shore. Það er útbreidd skoðun að þessi þáttur sé einhver lágkúrulegasta afþreying sem fyrirfinnst í allri þeirri fáskrúðugu flóru lágmenningarlegrar hörmungar sem framleiddur hefur verið fyrir amerískt sjónvarp. Ég fylgdist dolfallinn með ástum, örlögum, slagsmálum og skyndikynnum fimm-menningana í hinu subbulega partígreni og sökkti mér á bólakaf í innbyrðisdeilur og bandalög íbúanna. Eftir hvern einasta þátt fékk ég óseðjandi þörf til þess að fara í sturtu og reyna að skola af mér lágmenninguna.

Ég hugðist bæta fyrir þessu ómenningarlegu afbrigðilegheit skömmu seinna og gerði heiðarlega tilraun til þess að gerast áhugamaður um óperur. Ég fór tvisvar í óperuna á nokkurra ára tímabili en keypti mér þar að auki áskrift af óperuútsendingum Metropolitan óperunnar í New York. Í gegnum iPad-inn gat ég þar með fullnægt þörf minni fyrir hámenningu hvenær sem mér datt í hug. Og ég gerði það.

Óperuáskriftin reyndist uppfylla þessa þörf mína á undraskömmum tíma og hefur reynst næstversta fjárfesting mín á síðustu árum—á eftir handlóðasettinu sem bíður átekta úti í bílskúr.

Nú í lok sumars hef ég komið sjálfum mér aftur á óvart og ég er ekki frá því að ég hafi fundið menningarlega afþreyingu sem stendur nokkurn veginn mitt á milli lágkúrusjónvarpsins og hámenningarinnar, sem ég ræð ekki við. Ég hef uppgötvað fegurðina og spennuna við þjóðaríþrótt Bandaríkjanna, hafnarbolta (eða hornabolta, eins og það var einhvern tímann kallað).

Vandinn við þetta áhugamál mitt er að það er heldur einmanalegt. Ég hef reynt án nokkurs árangurs í nokkrar vikur að fá vini, vinnufélaga og jafnvel almenna vegfarendur til þess að leggja við hlustir þegar ég reyni að útskýra kosti þess að gerast fanatískur hafnarboltaaðdáandi. Ástríðufullum fyrirlestrum mínum um ágæti hafnarboltans er iðulega mætt með glotti, þögn og jafnvel hlátri. Ég hef meira að segja lúmskan grun um að sumir viðmælenda minna—ef þá ekki hver einn og einasti—haldi að ég sé að grínast.

Ég er ekki að grínast. Hafnarbolti er vanmetnasta íþrótt heims—og mun ég hér gera grein fyrir nokkrum ástæðum fyrir þeirri staðhæfingu minni, um leið og ég vonast til þess að snúa einhverjum lesendum frá þeirri villutrú að halda að hafnarbolti sé á einhvern hátt óæðri öðrum vinsælli íþróttum.

10 ástæður fyrir því að allir viti bornir menn ættu að gerast fanatískir hafnarboltaaðdáendur.

1. Spenna
Hafnarbolti er þess eðlis að þótt leikurinn taki langan tíma og sé spilaður í níu lotum, þá er mjög óalgengt að staðan sé orðin óvinnandi fyrir annað liðið fyrr en í allra síðustu lotu. Við það bætist að þreyta og einbeitingarleysi leikmanna í lok leiks eykur líkurnar á mistökum þannig að stig geta hlaðist inn á örskömmum tíma—algjörlega óháð því sem gerst hefur áður í leiknum. Þetta er gjörólíkt því sem gerist t.d. í knattspyrnu þar sem nánast kraftaverk þarf til þess að vinna upp meira en tveggja marka forystu.

2. Dramatík
Þegar maður byrjar að skilja leikinn örlítið kemur í ljós að það er sífelld dramatík í gangi. Þegar sá kastari, sem byrjar leikinn, fer að þreytast byrja þjálfararnir að undirbúa að skipta honum út. Þetta getur verið mikið egó-mál hjá kastaranum og hægt er að lesa vonbrigðin úr andliti þeirra þegar þeim er kippt út úr leiknum.
Ennfremur geta hin smávægilegustu mistök orðið gríðarlega dýrkeypt. Eitt frægasta dæmið um það átti sér stað í sjötta leik úrslitarimmunnar milli Boston Red Sox og New York Mets árið 1986 þegar einn leikmanna Boston, Bill Buckner, missti aðvífandi bolta milli fóta sinna í framlengingu og kostaði þar með Red Sox meistaratitilinn. Sambærileg atvik geta vitaskuld átt sér stað í öðrum íþróttum; en í hafnarbolta er mun algengara að úrslit ráðist á einstöku atviki.

3. Maður-á-mann
Hafnarbolti byggist á því að kastari reynir að koma í veg fyrir að kylfingur nái að kýla boltann út á völlinn (þeir sem kunna kýló þekkja í raun helstu reglur hafnarboltans). Þess vegna er hver einasta „sókn“ í raun einvígi milli kastarans og þess sem heldur á kylfunni. Þetta eru oft mjög spennuþrungnar viðureignir þar sem andstæðingarnir beita ýmsum lymskulegum brögðum til þess að taka hvor annan á taugum—enda er fullkomin yfirvegun algjör forsenda þess að geta gert nokkuð gagn inni á vellinum. Á þetta sérstaklega við um kastarann.

4. Einn fyrir alla og allir fyrir einn
Þrátt fyrir að í hafnarbolta séu stöðug einvígi milli kastara og kylfings þá er allt leikskipulag grundvallað á þeirri forsendu að liðsfélagar hiki aldrei við að fórna sér, og sinni eigin dýrð, liðinu til heilla. Þannig er algengt að kylfingar fórni tækifæri sínu til þess að slá langt til þess að hjálpa öðrum hlaupurum að komast yfir á næstu höfn.

5. Feitir og gamlir íþróttamenn
Hafnarbolti er ákaflega hughreystandi íþrótt fyrir fólk sem er nýlega komið af þeim aldri að geta stundað keppnisíþróttir sjálft. Í hafnarbolta eru fjölmörg dæmi um íþróttamenn sem spila vel inn á fimmtugsaldur og er slíkum mönnum jafnvel úthlutuð sérstök staða í liðinu. Þeir eru eins konar „súkkulaði“ þegar kemur að því að eltast við bolta úti á velli en geta látið það duga að koma öðru hverju út á völl til þess að slá og skokka svo makindalega á fyrstu höfn, eða lengra, ef þeim tekst að slá knöttinn—en rölta annars rólega aftur í sætið sitt.

6. Gríðarleg tækni
Ef venjulegum manni væri sagt að reyna að slá með kylfu knött sem atvinnukastari í hafnarbolta sendir til hans þá má teljast öruggt að honum tækist það aldrei, enda kemur knötturinn jafnan á 130 til 170 kílómetra hraða. Hið gagnstæða er ekki síður satt. Ef óvanur maður gerði tilraun til þess að henda til atvinnumanns í hafnarbolta þá myndi atvinnumaðurinn slá knöttinn út fyrir völlinn í nánast hvert einasta sinn. Venjulegum manni gæti tekist að spjara sig að einhverju leyti í nokkrar mínútur í ýmsum öðrum íþróttum—en í hafnarbolta er það ómögulegt.

7. Tölfræði og taktík
Flestir vita að í kringum hafnarbolta eru dregin saman ósköpin öll af tölfræði. Reiknað er út hversu vel tilteknum leikmanni gengur gegn örvhentum eða rétthentum köstururum, hversu líklegir þeir eru til þess að ná að slá knöttinn eftir mismunandi tíma dags, hvort menn séu líklegri að hitta þegar boltanum er kastað fast eða hann sendur í sveigju og svo framvegis og svo framvegis. Þessi tölfræði er svo undirstaða herkænskunnar sem beitt er til þess að hámarka sigurlíkurnar. Um þetta hafa verið skrifaðar lærðar ritgerðir og bækur, að ógleymdri kvikmyndinni Moneyball. Þessi tölfræði gerir leikinn áhugaverðari og hjálpar til við að gera innantómar samræður gáfulegar. Þar að auki felst í þessari tölfræðiáráttu tækifæri til þess að viðhalda þjálfun í reikningi eða koma börnum á bragðið með skilning á mikilvægi þess að kunna að reikna.

8. Hártíska og tóbaksnotkun
Bandarískir hafnarboltaleikmenn virðast ekki mjög uppteknir af útliti sínu eða hreinlæti. Fjölmargir leikmenn velja að láta klippa hár sitt í svokölluðum „mullet“ stíl, þar sem hárið er stutt að framan en fær að vaxa niður á axlir að aftan (ekki ósvipað klippingu söngvarans Limahl í gamla daga). Þetta þykir almennt ekki bera vott um mikla smekkvísi en þjónar líklega þeim tilgangi að skýla hnakkanum fyrir sólskini þegar staðið er úti á velli tímunum saman.
Hafnarboltaleikmenn eru líka síhrækjandi út úr sér tóbakstuggum. Þetta hefur mér virst vera mismunandi eftir liðum en er þó mjög útbreitt. Þessi óvani er einkar ósmekklegur, og í raun ógeðslegur. Tóbakstuggan er ófrýnileg bæði þegar hún er kýld út í kinnarnar á leikmönnum og þjálfurum—en ekki síður þegar henni er spýtt út ýmist á völlinn eða í þartilgerða hrákadalla sem teljast nauðsynlegur staðalbúnaður í búningsklefum og á varamannabekkjum.
Fyrir áhugasama vil ég benda á lið Washington Nationals, sem að mínum dómi hefur náð hvað lengst í því notkun tóbaks og reiknast mér til að leikmenn hræki út úr sér tuggum að jafnaði þrisvar á hverri mínútu.
Þetta fullkomna áhugaleysi um útlit og hreinlæti er einhvern veginn hressandi stílbrot í samfélagi þar sem yfirborðsdýrkun er allsráðandi.

9. Heppileg lengd á leik
Eitt af því fyrsta sem vantrúaðir viðmælendur mínir segja þegar ég upplýsi þá um nýfenginn áhuga minn á hafnarbolta er að leikurinn sé of langur og að það „gerist ekki neitt.“ Þetta er vissulega rétt. Leikir eru að jafnaði aldrei undir þremur klukkutímum og sannarlega má segja að það gerist mjög lítið. Í mínum huga er þetta þó frekar kostur en galli. Hafnarbolti hentar nefnilega prýðilega til þess að hafa í gangi meðfram heimilisstörfum, tölvupóstsskrifum, barnasvæfingum, blaðalestri, skrifstofuskipulagi og fleiri skylduverkum sem ekki eru endilega mjög ánægjuleg í sjálfum sér. Hægt er að hafa hafnarboltaleik í gangi í langa stund og skjótast til þess að sinna hinu og þessu á milli, en hafa þó augun nægilega vel á leiknum til þess að missa af engu ef stefnir í dramatík eða spennu.

10. Stórkostleg stafræn upplifun
Bandaríska hafnarboltadeildin (MLB) stendur langfremst öllum öðrum íþróttasamböndum í framleiðslu á stafrænu efni. Hægt er að gerast áskrifandi af öllum leikjum tímabilsins (hvert lið leikur 162 leiki fyrir utan úrslitakeppni) og horfa í gegnum sjónvarp (t.d. með AppleTV), tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma. Upplifunin í gegnum þessa miðlun er því sem næst fullkomlega hönnuð. Hægt er að fylgjast með mörgum leikjum í einu og hafa með einni fingrabendingu aðgang að allir hugsanlegri tölfræði og upplýsingum sem hugurinn girnist. Fyrir þá sem hafa efasemdir um hafnarbolta, en áhuga á hugbúnaði, fjölmiðlun eða öðrum íþróttum, er margt galnara en að kynna sér MLB „app-ið“.

***

Hafnarboltatímabilinu lýkur innan skamms. Það er óðum að verða ljóst hvaða lið komast í úrslitakeppnina, þar sem spennan mun auðvitað verða nánast óbærileg. Mínir menn í LA Dodgers hafa nánast tryggt sér sigur í sínum riðli og skilið erkifjendur sína, núverandi meistara í San Francisco Giants, eftir með sárt ennið. Það er ekki óhugsandi að lesendur Deiglunnar fái frekari fréttir af framgangi þeirra mála þegar líður á haustið.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.